*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 2. nóvember 2011 07:20

Vildi ekki kaupa Iceland Express

Starfsmaður ótilgreinds fjármálafyrirtækis bauð fjárfestingarfélaginu Títan að kaupa Iceland Express af Pálma Haraldssyni.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Starfsmaður ótilgreinds fjármálafyrirtækis bauð fjárfestingarfélaginu Títan, sem er í eigu Skúla Mogensen, að kaupa Iceland Express af Pálma Haraldssyni fyrir tíu dögum til tveimur vikum. Þetta kemur fram í DV í dag.

Tilboðið kom eftir að fréttist af stofnun lággjaldaflugfélagsins WOW Air sem Skúli er að stofna. Á vef DV segir að framkvæmdastjóri Títan, Baldur Oddur Baldursson, hafi staðfest þetta í samtali við blaðið og að tilboðinu hafi verið hafnað.

„Starfsmaður eins af viðskiptabönkunum hafði samband við okkur og spurði hvort við hefðum áhuga á að setjast niður og ræða um kaup á Iceland Express. Þetta var eftir að við byrjuðum að vinna að stofnun WOW Air. Við bara afþökkuðum það, sögðumst ekki hafa áhuga á því og þetta náði ekkert lengra,“ segir Baldur Oddur.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri móðurfélags Iceland Express og náinn samstarfsmaður Pálma í flugrekstrinum, segir að milliliðurinn um viðskiptin hafi haft samband við Títan eftir að hafa ráðfært sig við stjórnendur Iceland Express. Hann undirstrikar þó í samtali við DV, þrátt fyrir þetta, að Iceland Express sé ekki og hafi ekki verið til sölu.

„Maður sem hefur atvinnu af því að koma á viðskiptum með fyrirtæki hafði samband við okkur eftir að fyrir lá að Skúli Mogensen og fleiri væru að stofna fyrirtæki í flugrekstri. Í kjölfar samtals við mig hafði umræddur maður samband við Skúla og félaga og spurði hvort áhugi væri á kaupum þeirra á Iceland Express. Svarið kom um hæl, að enginn áhugi væri á slíku. Engar frekari viðræður hafa verið um þetta mál, hvorki formlegar né óformlegar. Iceland Express er ekki og hefur ekki verið til sölu,“ segir Skarphéðinn.