Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði áherslu á að skipa konu með reynslu úr fjármálageiranum sem stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins. Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í dag um skipun ráðherrans á Höllu Sigrúnu Hjartardóttur  sem stjórnarformann FME.

Helgi Hjörvar hafði þá spurt ráðherrann að því hvort honum hefði verið kunnugt um kæru Íslandsbanka á hendur Höllu til FME, Samkeppniseftirlitsins og embættis sérstaks saksóknara. „Spurt er hvort mér hafi verið kunnugt um að viðkomandi hafi á einhverjum tímapunkti verið kærður. Mér var kunnugt um það. Það frétti ég eftir að ég tók ákvörðun um að skipa viðkomandi í stjórnina en mér var um leið kynnt að löngu áður hefði málið verið látið niður falla. Það þýðir að ekki þóttu efni til að bregðast við kærunni," svarar ráðherrann til.

Ekki ástæða til að draga kæru á eftir sér

Þá sagði fjármálaráðherra að í ljósi þess hverjar málalyktir hafi verið hafi ekki verið ástæða til að láta kæru hafa áhrif á ákvörðun hans um að skipa Höllu sem stjórnarformann FME. Ekki væri tækt að fólk léti skugga af kærum fylgja sér inn í framtíðina. Hann myndi ekki bíða boðanna um að skipa annan stjórnarformann ef efnisleg rök stæðu til þess.

Jafnframt segir fjármálaráðherra að mikilvægt hafi verið að Halla Sigrún hafi sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún tjáir afstöðu sína til þeirra fullyrðinga sem hafa verið í umræðunni og „taka af skarið með það að þetta ætti ekki við rök að styðjast."

Fjölda spurninga er þó eftir sem áður ósvarað í málinu. Halla Sigrún hefur ekki orðið við beiðni Viðskiptablaðsins um að tjá sig um óvissuþætti í málinu, eins og það hvernig það hafi atvikast að hún eignaðist hlut í Heddu eignarhaldsfélagi eftir að hún hafði áður haft aðkomu að sölu Skeljungs til meðeigenda hennar í félaginu, á meðan hún vann í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka.