Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að hjúkrunarfræðingum hafi verið boðin 20 prósenta launahækkun og að henni hafi verið hafnað. Telur hann að fjöldauppsögnum hjúkrunarfræðinga sé ætlað að knýja fram kjarabætur eftir að lögbann var sett á verkfall þeirra.

Yfir 100 hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum hafa sagt upp störfum eftir að bundinn var endi á verkfall þeirra með lagasetningu, en Bjarni segir að ef hann gæti væri hann tilbúinn að hækka laun þeirra um 50 prósent eða meira. Það sé hins vegar ekki í boði.

„Hvað getum við lagfært hátt hlutfall af vandanum [innsk. blm: launamuni kynjanna] í einum kjarasamningi, í eitt skipti? Þessar uppsagnir eru að sjálfsögðu hluti af kjaradeilunni, þær eru hugsaðar til þess að ná fram svipuðum áhrifum og verkfallið,“ sagði Bjarni í Helgarútgáfunni á Rás 2 í morgun.

„Við höfum boðið hjúkrunarfræðingum rúmlega 20 prósenta launahækkun á næstu árum. Það er verulega mikil kjarabót að því gefnu að verðbólgan verði lág. Menn segja að hjúkrunarfræðingar þurfi meira. Ég hef skilning á því, ég myndi gjarna vilja geta hækkað laun hjúkrunarfræðinga um 50 prósent, eða jafnvel meira, eins mikið og svigrúm leyfir. En við erum á sama tíma að reyna að ná öðrum markmiðum.“