Af þeim ellefu ráðherrum sem sitja í nýrri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem tekur við völdum í dag hafa sjö þeirra ekki gegnt ráðherraembætti áður.

Að auki eru fjórir þeirra nýir á þingi, en einungis tveir ráðherranna sitja í fráfarandi ríkisstjórn, það er auk Bjarna sjálfs, Kristján Þór Júlíusson fráfarandi heilbrigðisráðherra

„Þetta var erfitt val og ég þurfti að líta til margra sjónarmiða,“ segir Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, í samtali við Morgunblaðið en hann hafði heitið því að stefna að jöfnum kynjahlutföllum.

Fjórir ráðherrar nýir á þingi

Af sex ráðherrum Sjálfstæðisflokks Bjarna eru fjórir karlar og tvær konur. Tveir þeirra eru frá kjördæmum úti á landi, annars vegar Kristján Þór sem tekur við sem menntamálaráðherra en hann er frá Norðausturkjördæmi.

Hins vegar er það Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem er frá Norðvesturkjördæmi, en hún er jafnframt ný inn á þing.

Sigríður Andersen verðandi dómsmálaráðherra hefur verið varaþingmaður en kom inn sem fastur þingmaður á síðasta kjörtímabili við fráfall Péturs Blöndal.

Aðrir ráðherrar sem eru nýir inn á þing eru þau Benedikt Jóhannesson, Þorsteinn Víglundsson frá Viðreisn og Björt Ólafsdóttir frá Bjartri framtíð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir snýr nú aftur á þing og beint inn í ráðherrastól, en í þetta sinn situr hún í umboði Viðreisnar en áður var hún í Sjálfstæðisflokknum.