Vegna deilna um eignarhald Sports Direct íþróttavöruverslunarinnar á Íslandi hyggst Mike Ashley stefna íslensku eigendunum. Ashley, sem er líklega frægastur fyrir að eiga knattspyrnuliðið Newcastle, á Sports Direct í Bretlandi.

Breska blaðið Sunday Times greinir frá því í dag að Ashley ætli að stefna tveimur félögum í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, sem og Sigurði Pálma Sigurbjörnssyni, syni Ingibjargar. Félögin heita Guru Invest og Rhapsody Investments. Samtals eiga Íslendingarnir 60% í versluninni hér heima en 40% er í eigu Sports Direct.

Samkvæmt Sunday Times er verslunin á Íslandi ein arðbærasta Sports Direct verslunin. Blaðið fullyrðir að Ashley hafi fyrir skömmu gert tilboð í hlut Íslendinganna. Tilboðið á að hafa hljóðað upp á 91 þúsund pund eða rétt ríflega 12 milljónir. Tilboðinu var strax hafnað enda er verslunin metin á um 2,5 milljarða samkvæmt Sunday Times.