Gunnar Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), freistaði þess að létta álaga af sjálfum sér þegar að honum var sótt á sínum tíma  með því að kom trúnaðargögnum um viðskipti þingmannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til DV í fyrra. Markmiðið var að koma höggi á Guðlaug, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Aðalmeðferð var í máli Gunnars og fyrrverandi starfsmanns Landsbankans, Þórarins Más Þorbjörnssonar, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þeim er gefið að sök að hafa brotið þagnarskyldu.

Í Fréttablaðinu segir um aðalmeðferðina að ekki sé um það deilt að Gunnar setti sig í samband við Þórarin í febrúar í fyrra og bað hann að afla gagna um viðskipti félagsins Bogmannsins við Landsbankann árið 2003. Bogmaðurinn var félag á vegum Guð- laugs Þórs Þórðarsonar og viðskiptin kaup bankans á líftryggingarumboði af félaginu fyrir 32,7 milljónir.

Í blaðinu er haft eftir Gunnari að hann þekkt Þórarinn sem bóngóðan og úrræðagóðan. Gunnar hafi sagt Þórarni að hann væri undir miklu álagi og sætti aðför. Aðförin sagði hann hafa staðið lengi og úr ýmsum áttum. Þátttakendur hafi verið menn sem FME hefði kært til sérstaks saksóknara, „leigupennar“, lögmenn og jafnvel þingmenn, til dæmis Guðlaugur Þór, segir í blaðinu sem hefur eftir Gunnari að Kastljósþáttur um málefni hans hafi innihaldið „sviðsett viðtal“ við „einhvern lögmann“ þar sem veist hefði verið að honum. Þátturinn var sýndur 17. nóvember árið 2011 og fjallað um aðkomu hans að starfsemi aflandsfélaga Landsbankans á fyrri hluta síðasta áratugar. Lögmaðurinn var Sigurður G. Guðjónsson, sem fjallaði um mál Gunnars. Eftir þetta sagði hann árásirnar hafa magnast. Nýr þátttakandi hafi bæst við, formaður stjórnar FME, sem hafi boðið sér ýmis gylliboð til að koma sér úr starfi.

Þetta leiddi til þess að Gunnar leitaði til Þórarins. Það hafi hann ekki gert sem forstjóri FME, heldur sem vinur. „Þetta var persónan Gunnar Andersen sem var að berjast fyrir lífi sínu í starfi og hafði samband við persónulegan vin og bað um greiða,“ hefur Fréttablaðið eftir honum.