*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 16. september 2021 11:29

Vildi miða við virði ári eftir andlát

Yfirskattanefnd gerði sýslumann nýverið afturreka vegna álagningar erfðafjárskatts.

Jóhann Óli Eiðsson
Fasteignaverð hafði hækkað talsvert frá dánardegi mannsins og til þess dags sem erfðafjárskýrslu var skilað.

Við gerð erfðafjárskýrslu ber að meta eignir til verðs á dánardegi hins látna. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar sem sneri með því ákvörðun sýslumanns en sá síðarnefndi hafði viljað að verðmat fasteignar dánarbúsins tæki mið af virði á þeim degi er erfðafjárskýrslu var skilað.

Í umræddu máli hafði einstaklingur látist árið 2019 en erfðafjárskýrslu var skilað í júní 2020. Samkvæmt henni var fasteign í eigu hins látna metin á rétt rúmlega 72 milljón krónur. Þremur mánuðum síðar gerði sýslumaður athugasemdir við skýrsluna þar sem matsverð eignarinnar væri fimmtungi lægra en fasteignamat hennar.

Að beiðni erfingja var fenginn matsmaður til að leggja mat á virði eignarinnar en niðurstaða hans var sú að hún væri 78 milljón króna virði. Lagði sýslumaður það til grundvallar við álagningu skattsins. Því til viðbótar hafnaði hann því að fasteignagjöld, rúmlega 527 þúsund krónur, sem gjaldféllu eftir andlát mannsins væru frádráttarbær frá skattstofninum. Hrein eign til skipta væri því 99 milljón krónur.

Í athugasemdum erfingjanna kom fram að fyrrnefndur matsmaður hefði lagt mat á virði fasteignarinnar í júní 2020, það er um ári eftir andlát arfleifanda. Á þeim tíma hefðu orðið verulegar hækkanir á fasteignaverði. Fasteignamat á matsdegi var 97,6 milljón krónur en mat fasteignasalan var tæp 80% af þeirri upphæð. Fasteignamat á dánardegi hefði verið 91,2 milljón krónur og milljónirnar 72 því fundnar út með því að taka 80% af þeirri upphæð.  

Skattstofninn lækkaði um sex milljónir

Fyrir nefndinni féllu erfingjarnir frá kröfu um að álögð fasteignagjöld yrðu dregin frá skattstofninum en var það gert í kjölfar niðurstöðu yfirskattanefndar í öðru máli. Deilunni um virði fasteignarinnar var aftur á móti haldið til streitu.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að meginreglan sé sú að telja beri fasteignir fram á fasteignamati. Frá því séu hins vegar undantekningar ef ætla má að almennt markaðsvirði sé lægra en fasteignamatið. Í þeim tilfellum þarf að fara verðmat í samræmi við fyrirmæli laga um skipti á dánarbúum.

„Samræmisrök standa til þess að skýra umrætt ákvæði […] með hliðsjón af meginreglu [laga um erfðafjárskatt] um tímamark verðviðmiðunar þannig að þegar verðmats á fasteign er aflað vegna álagningar erfðafjárskatts beri að miða við gangverð fasteignar á dánardegi arfleifanda eftir því sem kostur er,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar. Þá var enn fremur bent á að lög um dánarbússkipti veittu nokkuð svigrúm við ákvörðun forsendna verðmats.

Að mati nefndarinnar var ekki annað ráðið af gögnum málsins en að mat fasteignasalan byggði á stöðunni í júní 2020 og að eignin hefði hækkað nokkuð í verði frá dánardegi mannsins. Aðferð erfingjanna var því lögð til grundvallar og lækkaði skattstofninn því um sex milljón krónur.

Kröfu erfingjanna um að kostnaður við öflun matsins yrði dreginn frá skattstofni var hins vegar vísað frá yfirskattanefnd þar sem nefndin taldi slíka ákvörðun falla utan síns valdsviðs. Erfingjunum voru hins vegar úrskurðaðar 80 þúsund krónur í málskostnað vegna málsins.