*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 30. nóvember 2017 10:00

Vildi róttækari mótttöku flóttamanna

Ný ríkisstjórn verður kynnt á fundi klukkan 10 í Listasafni Íslands. Tveir þingmenn VG styðja ekki ríkisstjórnina.

Ritstjórn
Kolbeinn Óttarsson Proppé er einn þingmanna Vinstri grænna sem styður komandi ríkisstjórn.
Haraldur Guðjónsson

Tveir þingmenn Vinstri grænna, þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, lýstu því yfir á fundi flokksráðs Vinstri grænna að þau styddu ekki stjórnarsáttmála flokksins með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Á fundinum var samþykkt að styðja stjórnarsamkomulagið en núna klukkan 10 hefst blaðamannafundur nýrrar ríkisstjórnar í Listasafni Íslands.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma studdu þingmennirnir ekki að farið væri í stjórnarmyndunarviðræðurnar, en þau sögðust myndu taka sjálfstæða afstöðu til sáttmálans þegar hann væri kominn í ljós.Verður þingstyrkur Vinstri grænna á bakvið ríkisstjórnina því tveimur þingmönnum færri, eða 9 í stað 11 og því meirihluti ríkisstjórnarinnar 33 þingmenn á móti 30, en ekki 35 á móti 28.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna stóð yfir í fimm klukkustundir, og lauk rétt fyrir 10 í gærkvöld og var ónotum beint gegn þingmönnunum tveimur úr ræðustól fundarins að því er Fréttablaðið segir frá. Kusu 75 flokksráðsfulltrúa með stjórnarsáttmálanum, en 15 þeirra kusu gegn honum, en 3 sátu hjá.

„Ég hefði líka viljað sjá stærri og róttækari skref þegar kemur að móttöku flóttamanna og svo líka þegar kemur að þróunarsamvinnunni,“ segir Rósa Björk í samtali við Morgunblaðið en hún segir utan­rík­ismálakafla sáttmálans mikil vonbrigði. „Hann er fullkomin uppgjöf af hálfu Vinstri grænna, að minni skoðun.“

„Það eru mjög stór atriði þarna sem er ekki talað um, eins og einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni eða arðgreiðslur úr heilbrigðisþjónustu,“ segir Rósa Björk jafnframt í gagnrýni sinni á stjórnarsáttmálann.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá er komið í ljós hvernig skipting ráðuneytanna verður milli flokkanna þó ekki sé búið að tilkynna ráðherraefnin sjálf, en enn virðist óvissa með hvaða flokkur fái forseta Alþingis. Það ætti þó að koma í ljós á blaðamannafundinum sem nú er að hefjast og hægt er að sjá í beinni útsendingu á vef Vísis.

Fyrst þingflokkur Vinstri grænna á bakvið ríkisstjórnina er minni en upphaflega var stefnt að er talið ólíklegra nú en áður að Steingrímur J. fái embætti forseta Alþingis eins og Viðskiptablaðið greindi frá, en ríkisráðsfundur með forseta Íslands fer fram klukkan 15:00 í dag á Bessastöðum þar sem ný ríkisstjórn verður formlega skipuð undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Bjarni Benediktsson starfandi forsætisráðherra mun hitta forsetann klukkan 13:30 til að biðjast lausnar fyrir sitt ráðuneyti.