Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir var nýlega ráðin sem sölu- og markaðsstjóri SagaMedica en hún segist vera spennt fyrir nýju starfi. „Það var verið að fara í breytingar á skipulagi fyrirtækisins þar sem það átti að ráðast í frekari sölu og markaðssetningu félagsins bæði á innlendum og erlendum mörkuðum.“

Ingibjörg segist hafa haft mikinn áhuga á fyrirtækinu og strax litist mjög vel á stöðuna. „Það er mjög gefandi og skemmtilegt að markaðssetja vörur sem hafa það að markmiði að bæta lífsgæði fólks. Þetta er vara með sterka og góða sögu sem kemur úr íslenskri náttúru. Núna er tækifærið fyrir Ísland, það er mikil aukning í komu ferðamanna og það er meiri vitund um Ísland þannig að það er ákveðinn meðbyr með vörum í erlendri markaðssetningu. Ég sá því strax að mín reynsla og þekking í markaðssetningu og sölu gæti nýst vel hjá fyrirtækinu.“

Maraþon langtímamarkmiðið

Ingibjörg segir að hún reyni að nýta allan tíma sem hún getur með syni sínum. „Númer eitt, tvö og þrjú er að eyða tíma með syni mínum sem er ellefu ára. Ég reyni líka að verja sem mestum tíma með fjölskyldu og vinum. Svo finnst mér gott að fara á hlaupabrettið, nýti það til að hugsa og endurhlaða batteríin. Ég hef hlaupið nokkur hálfmaraþon og stefni á að taka heilt við tækifæri.“ Spurð hvenær hún ætli sér að ná að klára heilt maraþon segir hún að hún vilji ekki alveg kasta því fram en hún segir þó að það sé á svona þriggja til fimm ára áætluninni og hlær.

„Ef það á síðan að vera alveg topp kvöldstund þá er gott að fara út að borða og svo á góða tónleika.“ Ingibjörg er nýlega búin að upplifa ósk sem hafði verið lengi á listanum en það var að sjá Madonnu á tónleikum, en hún er nýkomin heim frá Stokkhólmi þar sem hún fór á tónleika með poppdrottningunni.

Nánar er rætt við Ingibjörgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .