*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 14. október 2021 10:22

Vildi taka upp matsmál um gróður

Endurupptökudómur vísaði frá beiðni manns um endurupptöku matsmáls sem varðaði tjón þar sem plöntur voru fjarlægðar.

Jóhann Óli Eiðsson
Ekki kemur fram hverslags gróður var fjarlægður en hér fylgir mynd af gullregni sem ætti að gleðja augað.
Gunnhildur Lind Photography

Endurupptökudómur vísaði frá beiðni manns um að fá endurupptekið tveggja áratuga gamalt matsmál sem varðaði gróður í garði hans. Taldi maðurinn að matsgerðin í málinu hefði ekki verið í neinu samræmi við matsbeiðnina og að það réttlætti endurupptöku.

Sumarið 2001 fór maðurinn fram á það við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddur yrði matsmaður til að leggja mat á fjárhagslegt tjón sem fylgdi vegna þess að meðeigandi að fasteign hans hafi „fellt með ólögmætum hætti tré og annan gróður“ í garði fasteignarinnar.

Varð það úr að skrúðgarðyrkumeistari var dómkvaddur til starfans og skilaði hann matsgerð í október sama ár. Þegar matsgerðin var lögð fram mótmæltu maðurinn og kona hans matsgerðinni og kröfðust þess að nýtt mat yrði unnið. Ástæðan væri sú að matsgerðin hefði ekki verið í neinu samræmi við matsspurninguna.

Í ársbyrjun 2002 hafnaði héraðsdómur því að dómkveðja nýjan matsmann til starfans. Dómurinn féllst að vísu á að fyrri matsgerð hefði verið ófullkomin þar sem matsmaðurinn hafði ekki framkvæmt kostnaðarmat sem lagt hafði verið fyrir hann að gera. Var það verk lagt fyrir sama matsmann í stað þess að skipa nýjan til starfans.

Í rökstuðningi fyrir endurupptöku sagði maðurinn meðal annars að málsmeðferð héraðsdóms hefði verið slök og að dómari hefði kveðið upp úrskurð að málsaðilum fjarstöddum. Dómari málsins hefði til að mynda ekki boðað til þinghalds en þar væri á ferð „gróft brot á mannréttindum málsaðila“. Að sama skapi hefði falist „gróft brot“ í því að skipa sama matsmann aftur.

„[M]atsgerð hins dómkvadda matsmanns hafi ekki verið á neinn hátt í samræmi við matsbeiðni. Hafiekki verið annað hægt en að álíta matsmanninn óhæfan til starfans eða að hann hefði vanrækt starf sitt í ljósi þess sem hann lagði fram sem matsgerð,“ segir í rökstuðningnum.

Í niðurstöðu endurupptöku dóms segir að lögum samkvæmt hafi verið heimilað að endurupptaka dóma í einkamálum að tilteknum skilyrðum uppylltum. Aftur á móti væri engin heimild í lögum til að endurupptaka úrskurði. Af þeim sökum var málinu vísað frá dóminum.