Eigendur Kaupþings vildu afhenda íslenska ríkinu Arion banka sem hluta af stöðugleikaskilyrðum árið 2015 en ekkert varð af því. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Paul Copley, forstjóra Kaupþings, í ViðskiptaMogganum í dag.

„Sigmundur var forsætisráðherra á þeim tíma sem stöðugleikaskilyrðin voru samþykkt. Eigendur Kaupþings vildu í raun afhenda ríkinu bankann sem hluta af stöðugleikaskilyrðunum, en ekki varð af því. Þannig að Sigmundur er mjög vel meðvitaður um af hverju við eigum Arion banka en ekki ríkið og af hverju þetta forkaupsréttarákvæði var sett. Þetta er pólitísk ákvörðun og ríkisstjórnin sem nú situr vill selja sinn hlut í bankanum og út frá því vinnum við.

Þeir hefðu getað þjóðnýtt bankann, þeim var boðið það. Ég er maður sem leysi upp þrotabú. Ef þeir vilja fara aðra leið þá ættum við að ræða það og gera það, en miðað við núverandi stefnu, sem er að selja bankann, vil ég gera það á sem átakaminnstan hátt í góðu samstarfi við alla,“ segir Copley í samtali við ViðskiptaMoggann.

Skoða kauphöll í Skandinavíu

Copley segir varðandi tvöfalda skráningu hlutabréfa bankans ef af frumútboði yrði segir Copley að slíkt sé í skoðun, en það hefur komið fram í ársfjórðungsuppgjörum Arion banka. „Með samhliða skráningu í erlendri kauphöll yrði fólki gefinn kostur á að eiga viðskipti bæði á Íslandi eða annars staðar í íslenskri krónu eða annarri mynt. Við teljum að mesta eftirspurnin myndi koma frá útlöndum. Það væri mikilvægt að hafa tvöfalda skráningu til að hámarka sýnileika bréfanna og eftirspurnina,“ segir forstjóri Kaupþings.

Þegar hann er spurður út í það hvaða kauphöll gæti orðið fyrir valinu fyrir skráningu erlendis, segir Copley að horft sé til kauphallar í Skandinavíu. Áður hefur verið fjallað talsvert um það að horft væri til Stokkhólms í þessu samhengi. Hann tekur fram að það hafi farið fram mikið kynningarstarf á bankanum.

Panamaskjölin höfðu áhrif

Þegar Copley er spurður út í aðkomu íslensku lífeyrissjóðanna bendir hann á að lífeyrissjóðirnir eru fyrirferðarmiklir á íslenska markaðnum. Hann segir að Kaupþing ætli ekki að selja fleiri hluti í bankanum fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um frumútboð eða ekki.

Spurður út í viðræður við íslensku lífeyrissjóðina um kaup á Arion banka, sem runnu eftirminnilega út í sandinn , svarar Copley: „Já, við ræddum við þá um kaup á hlutum í lokuðu útboði. Ef við horfum aðeins til baka þá komu Panamaskjölin og stjórnarskiptin í veg fyrir að hægt væri að selja hlutabréf í bankanum á þeim tíma. Við vildum ekki selja á sama tíma og það væru kosningar út af óvissunni sem skapast. Til að gera gott úr þessu vildum við selja einhverja hluti til fjárfesta í lokuðu útboði. Við höfðum því samband við marga erlenda fjárfesta, m.a. marga af eigendum Kaupþings, ekki bara þá sem keyptu á endanum, flesta ef ekki alla lífeyrissjóðina hér á landi, tryggingafélög, fjársterka einstaklinga og fleiri.

Við leituðum fanga ansi víða. Undir lok síðasta árs vorum við mjög nálægt því að selja hlut, en það brást. Svo kom nýtt ár og ég hélt að það væri engin von til þess að selja neitt í lokuðu útboði en þá kom áhugi á kaupum. Við vorum að semja við lífeyrissjóðina á þeim tíma, þá stærstu það er að segja, og þegar við lukum sölunni fengu þeir ekki að kaupa af því að það voru aðrir sem buðu hærra. Ég gæti ekki sagt við mína eigendur og stjórnvöld að ég sé að selja þeim sem ekki býður hæst. Það er bara tómt rugl.“