*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 2. desember 2018 16:05

Vildu einfalda starfsemina

Finnur Oddsson, forstjóri Origo, segir að ágætur stígandi hafi verið í rekstri félagsins það sem af er ári.

Sveinn Ólafur Melsted
Finnur Oddsson, forstjóri Origo.
Haraldur Guðjónsson

Nú í upphafi árs sameinuðust Nýherji og dótturfélögin Applicon og TM Software undir nafninu Origo. Í tilkynningu Origo kom fram að markmiðið með þessari sameiningu hefði verið að nýta styrkleika fyrirtækjanna þriggja til að skapa heildstætt framboð lausna í upplýsingatækni og efla þjónustu við viðskiptavini enn frekar. Að sögn Finns er í raun of snemmt að segja endanlega til um það hvort öll markmið með þessari breytingu muni nást, en það liggi þó fyrir að þær hafa skilað jákvæðum viðsnúningi í rekstri Origo og viðhorfum til félagsins.

„Við settum okkur nokkur megin markmið með sameiningu Nýherja og dótturfélaga undir Origo nafninu.  Í fyrsta lagi vildum við tengja starfsemi okkar betur saman sem gerir okkur kleift að bjóða upp á flóknari og umfangsmeiri lausnir og þjónustu.  Í öðru lagi vildum við einfalda fyrirtækið fyrir viðskiptavinum og gera þeim kleift að nálgast alla UT-þjónustu á einum stað.  Í þriðja lagi vildum við gera markaðssetningu okkar skýrari og skilvirkari.  Og að lokum vildum við bæta snerpu og viðbragðsflýti okkar gagnvart viðskiptavinum, innri og ytri.

Við fylgjumst svo vel með hvernig okkur miðar og ánægjulegt að við sjáum strax jákvæða þróun. Það hefur t.d. verið ágætur stígandi í rekstri okkar það sem af er ári og síðasti fjórðungur einn sá besti í sögu fyrirtækisins. Svo sýna „efst í huga" markaðsmælingar okkur að við erum fremst meðal upplýsingatæknifyrirtækja og hefur raunar aldrei mælst í jafn sterkri stöðu með gömlu vörumerkin okkar. Það má svo segja að þetta endurspeglist á hverjum degi í áhuga viðskiptavina okkar á því sem við erum að gera, sér í lagi umfangsmeira lausnaframboði sem hentar vel þörfum nútíma rekstrarumhverfis.

Ávinningur af upplýsingatækni í atvinnurekstri helgast af því geta gert hlutina betur, hraðar, einfaldar eða á hagkvæmari hátt. Þessum ávinningi er að hluta hægt að ná með öflugum búnaði og áreiðanlegum rekstri tækniinnviða, en þó fyrst og fremst með breytingum eða einföldun á viðskiptaferlum og aukinni sjálfvirknivæðingu, sem í dag næst fyrst og fremst með öflugum viðskiptakerfum og hugbúnaðarlausnum af ýmsu tagi.   Ef farið er yfir heildar lausnaframboð Origo í dag, þá bjóðum við upp á lausnir á öllum þessum sviðum.  Við höfum ávallt verið mjög sterk í öllum tölvubúnaði og höfum á síðustu árum byggt upp fremstu rekstrarþjónustu sem völ er á hérlendis. Með sameiningu við dótturfélögin TM Software og Applicon erum við svo að styrkja verulega framboð á hugbúnaðarlausnum og viðskiptakerfum fyrir stjórnendur, stuðning við hugbúnaðarþróun, ráðgjöf og þjónustu, í því augnamiði að hjálpa viðskiptavinum okkar að gera það sem þeir gera betur. Vöruframboð okkar endurspeglar þá flóru verkfæra sem atvinnurekstur kallar eftir í dag og sameinuð undir Origo-nafninu tel ég að við eigum erindi til okkar viðskiptavina sem aldrei fyrr.

Viðskiptavinir okkar hafa brugðist jákvætt við breytingunni á Origo og við erum þakklát fyrir að okkur er treyst fyrir mikilvægum verkefnum á hverjum degi. Þó að það sé of snemmt að segja til um það hvort við séum að ná öllum þeim markmiðum sem við stefndum að þá erum við klárlega á réttri leið. Byrjun ársins var reyndar nokkuð þung, m.a. vegna skipulagsbreytinga og mikilla fjárfestinga í markaðssetningu. Þetta er líklega ekkert óeðlilegt, enda tekur það tíma fyrir fólk að finna sig í nýju skipulagi og slípa til nýja ferla. Fyrsti fjórðungurinn var því undir væntingum en síðan þá er nýtt skipulag byrjað að virka betur, sem skilaði sér í töluvert bættum rekstri á öðrum og þriðja ársfjórðungi."

Sterk staða Origo

„Það er í sjálfu sér ekkert óvænt við þessa þróun, því við lögðum grunn að henni fyrir mörgum mánuðum, jafnvel nokkrum árum. Mér finnst það stundum gleymast á hlutabréfamarkaði að rekstur fyrirtækja er langtímaverkefni, þar sem frekar ætti að horfa til ára en fjórðunga. Fyrir um fimm árum var eiginfjárstaða samstæðunnar 11%, rekstur gekk upp og ofan og markaðsvirði, sem var rétt rúmur milljarður, endurspeglaði lítinn áhuga fjárfesta á félaginu. Þessu var ómögulegt að kippa í liðinn á milli fjórðunga þannig að við settum okkur markmið til lengri tíma, m.a. um að byggja fjárhagsstöðu þannig að félagið gæti staðið af sér næstu kreppu. Við vildum bæta rekstur og auka stöðugleika, létta ásýnd félagsins svo hún væri meira í takt við það sem hentar í okkar geira og auka almennan áhuga fjárfesta á félaginu. Við höfum núna unnið að þessum markmiðum í nokkur ár og breytingar og aðgerðir hafa smám saman skilað okkur þeim ávinningi sem lagt var upp með.

Ef við horfum á félagið eins og það stendur í dag, þá er óhætt að segja að okkur hafi miðað í rétta átt og Origo hefur líklega aldrei verið í jafn sterkri stöðu. Við búum auðvitað sem fyrr að frábærum hópi sérfræðinga og þannig að því sé haldið til haga, þá er það fyrst og fremst þessum hópi að þakka hver staða félagsins er nú. Félög eins og Origo byggja tilvist sína að öllu leyti á snjöllu starfsfólki.

Markaðsleg staða Origo er afar sterk og við finnum það áþreifanlega nú í eftirspurn eftir þjónustu okkar á flestum sviðum. Rekstur hefur svo almennt gengið vel en Origo hefur skilað hagnaði í hverjum fjórðungi undanfarin fimm ár, að einum fjórðungi undanskildum. Þetta góða gengi hefur svo gert okkur kleift að greiða niður skuldir og með afrakstri af sölu Tempo þá getum við í raun stillt fjármagnsskipan félagsins af eins og við teljum best henta. Það er svo ánægjulegt að áhugi fjárfesta hefur glæðst á undanförnum árum, markaðsvirði er nú tífalt á við það sem það var 2013 og félagið er vel í stakk búið að takast á við áföll eða efnahagslægðir sem munu óhjákvæmilega koma. Verkefnið framundan er því gerbreytt frá því sem var fyrir nokkrum árum. Við munum á næstu mánuðum koma hluta afraksturs af Tempo sölunni til hluthafa okkar, en annars nýta slagkraftinn til að sækja fram af krafti og halda áfram að skapa verðmæti fyrir viðskiptavini og hluthafa. Staðan er sterk en ég tel að við eigum ennþá mikið inni," segir Finnur.

Áfram hraðar breytingar

Upplýsingatæknifyrirtæki eins og Origo þurfa alltaf að vera á tánum enda breytist markaðurinn ört og mjög reglulega koma fram nýjar tæknilausnir. Spurður um hvernig hann telji að upplýsingatæknimarkaðurinn muni þróast á næstu árum, segir Finnur að eini fastinn í starfsemi upplýsingatæknifyrirtækja sé hraðar breytingar.

„Ég hef núna starfað hjá Origo í sex ár og það mætti segja að sá tími sé eins og heil kynslóð í upplýsingatækni. Það sem við vorum að ræða þá er að stórum hluta orðið ansi úrelt í dag og það er líklegt að svipað verði uppi á teningnum eftir önnur sex ár. Það blasir hins vegar við að gagnamagn heldur áfram að aukast og að forskot byggir á því að við finnum stöðugt skilvirkari leiðir til að geyma, vinna og nýta gögnin okkur til hagsbóta. Þar spila skýjalausnir, högun netkerfa, viðskipta- og gervigreind stórt hlutverk. Við þurfum svo ávallt að vera með auga á hagkvæmni, sem fæst a.m.k. að hluta með því að það hvernig atvinnulífið nýtir upplýsingatækni er að breytast úr því að vera fjárfesting yfir í það að vera rekstur, þ.e. aðgangur að þjónustu og aðföngum þegar þeirra er þörf í því magni sem hentar hverju sinni.

Það væri hægt að hafa langt mál um hvað er á sjóndeildarhringnum fyrir fyrirtæki eins og Origo, eða upplýsingatækni almennt, og fjalla t.d. um spennandi viðfangsefni eins og gagnagnótt, gervigreind, sjálfstýrð farartæki, sýndarveruleika eða bálkakeðjur. En þegar öllu er á botninn hvolft er erfitt að sjá nákvæmlega fyrir hvert hlutirnir eru að fara. Það sem er hins vegar öruggt, og líklega eini fastinn, er að breytingar munu halda áfram og það mjög hratt. Því má segja að það mikilvægasta sem við gerum í starfsemi eins og okkar sé að byggja upp getu til þess að takast á við hraðar breytingar, nema tækifæri hratt og bregðast við með breyttu og bættu lausnaframboði. Ein leið að þessu er að leggja áherslu á sveigjanleika í rekstri, m.a. með því að gæta þess að ákvarðanataka sé ekki á fáum höndum, heldur dreifð og þannig bæði sérhæfð og snörp. Við höfum reynt að hafa þetta að leiðarljósi á undanförnum árum, til þess að tryggja það að okkar öflugu sérfræðingar fái að gera það sem þeir gera best á hverjum degi, í ákvarðanatöku og verkefnum. Þannig að frekar en að reyna endilega að spá fyrir um hvert heimurinn er að fara, þá er ágætt að reyna að tryggja að sérfræðingarnir á hverju sviði séu í stöðu til þess að tækla þær breytingar sem eru að eiga sér stað á hverjum degi og skila ávinningi til viðskiptavina."

Viðtalið við Finn í heild sinni má nálgast í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Finnur Oddsson Tempo Origo Diversis