Nú á dögunum var greint frá því að Nova hefði tekið í notkun fyrsta 5G sendinn á Íslandi og hefur fyrirtækið hafið prófanir á 5G farsíma- og netþjónustu til viðskiptavina sinna. Gerir fyrirtækið ráð fyrir að kerfið verði komið í almenna útbreiðslu hér á landi á næsta ári. Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir, spurð um hvers vegna fyrirtækið hafi ákveðið að hefja undirbúning að því að koma 5G á laggirnar, að Nova vilji vera áfram leiðandi á íslenskum fjarskiptamarkaði. „Ákvörðunin um að fara í 5G er stórt skref í uppbyggingu farsímakerfis Nova og gerir fyrirtækinu kleift að mæta síaukinni netnotkun viðskiptavina okkar. Við finnum að viðskiptavinir hafa væntingar til þess að við bjóðum upp á 5G á sama tíma og víða erlendis."

„Í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) fyrir fyrstu sex mánuði síðasta árs kemur fram að Nova hafi átt 54% af markaðshlutdeild í netnotkun farsíma, þrátt fyrir að vera með 33% markaðshlutdeild viðskiptavina. Okkar viðskiptavinir nota netið mun meira en viðskiptavinir annarra fyrirtækja. Það kom jafnframt fram í skýrslunni að viðskiptavinir okkar eru að meðaltali að nota sex gígabæt í netnotkun á mánuði á meðan meðalnotkun viðskiptavina annarra fjarskiptafyrirtækja var 2,7 gígabæt á mánuði. Ef við horfum svo á þróunina síðan þessi skýrsla kom út þá er í dag meðalnotkun viðskiptavina Nova á mánuði að nálgast 10 gígabæt. Á þessum stutta tíma hefur vöxturinn því verið gífurlegur og við sjáum að afkastaþörfin verður sífellt meiri. Notendur gera sífellt meiri kröfur og nú þegar bílar, armbandsúr og nýjustu heimilistækin eru öll tengd við netið þá þurfa fjarskiptakerfin að vera undirbúin og Nova hefur lagt út í umtalsverða fjárfestingu til að vera á undan þörfinni fyrir aukna flutningsþörf.

Nova opnaði fólki dyr að stærsta skemmtistað í heimi, internetinu. Hlutverk okkar hefur verið og er að styðja við breyttan lífsstíl viðskiptavina okkar, gera þeim kleift að nýta tímann betur í leik og starfi. Við trúum á þráðlausa framtíð og ætlum okkur leiðandi hlutverk á því sviði. Það hafa átt sér stað miklar samfélagsbreytingar samhliða tækniframförum eins og 3G og 4G. Við höfum lagt áherslu á að vera leiðandi og ég tel að 5G sé mikilvæg tækni sem muni leiða af sér stofnun fjölda nýrra fyrirtækja," segir hún.

Fyrst kemur tæknin, síðan tækin

Að sögn Margrétar fékk Nova prófunarleyfi fyrir 5G tæknina frá PFS fyrr í þessum mánuði og í kjölfarið hafi fyrirtækið farið á fullt við að undirbúa prófanir. „Í dag erum við með 3G, 4G og 4,5G og mun 5G kerfið bætast þarna ofan á. Allt þarf þetta að tala saman. Fyrst kemur tæknin, kerfið og síðan koma tækin og þá getur internetið tekið breytingum. Það var gaman að sjá nýjan Samsung S10 styðja 5G og má búast við kapphlaupi á milli farsímaframleiðanda sem og annarra raftækja sem munu tengjast við 5G. Það verður því spennandi að sjá hvernig þróunin verður."

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .