„Það var hart lagt að Modernus að birta listann svona. Við höfðum engan áhuga á því,“ segir Soffía Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri mbl.is. Fréttavefurinn er ekki með í nýjustu samræmdu vefmælingu Modernus á netmiðlum hér á landi í síðustu viku. Mbl.is hefur verið með í mælingunni frá upphafi mælinga 1. maí árið 2001. Mbl.is hefur vermt toppsæti árslista Modernus yfir vinsælustu vefi landsins frá upphafi ef frá eru skilin árin 2007 til 2009 þegar Eve Online, tölvuleikur CCP, náði því. Visir.is er nú vinsælasti vefur landsins samkvæmt samræmdu vefmælingunni. Þrátt fyrir þetta er Modernus ekki hætt að telja mælingar á vef mbl.is.

Soffía segir að mbl.is hafi ekki viljað fara í slag út af ekki stærra máli og því ákveðið að víkja af listanum. Eins og vb.is greindi frá í morgun lagði fulltrúi Vísis.is það til á fundi samráðsnefndar Modernus snemma í desember í fyrra að bæta við vikulegum lista yfir meðaltalsnotendur á degi hverjum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá þeim miðlum sem verma tíu efstu sætin á lista Modernus. Sex nefndarmenn studdu tillöguna frá Vísi.is en þrír voru á móti, þar á meðal mbl.is.

„Birtingin á daglegu meðaltali verði sett inn í miðjar vikulegar tölur. Við viljum sérstakan lista með daglegum tölum yfir notendafjölda þar sem koma fram flettingar og innlit. Í raunininni vildu við hafa tvo jafnréttháa lista með fullum dagsmeðaltalslista og fullum vikulista. Við viljum birta ítarlegri tölur og munum gera það á vefnum í dag,“ segir Soffía.

Listi mbl.is mun birtast hér: http://media.mbl.is/itarefni/webstats.html . Nú er þar aðeins einn lista að sjá. Þegar upplýsingum mbl.is hefur verið bætt við þá verða listarnir tveir, þ.e. vikulisti og dagsmeðaltalslisti.