Kristín Þ. Flygenring, fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórn Arion banka fyrir síðasta aðalfund lagði fram tillögu á stjórnarfundi í lok síðasta árs að sala bankans á hlut í Bakkavör yrði rannsökuð.

Meirihluti bankastjórnarinnar hafnaði tillögunni að því er Fréttablaðið greinir frá, en efnislega svipuð tillaga hafði verið gerð árið 2015 af þáverandi varaformanni stjórnar bankans og einnig felld.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Bankasýsla ríkisins skrifaði fjármálaráðuneytinu en varaformanni bankans á sínum tíma, Guðrúnu Johnsen, var tjáð 15. nóvemberber í fyrra, degi eftir að hafa lagt fram tillöguna að aðkomu hennar í stjórn væri ekki lengur óskað.

Guðrún hafði þremur árum áður greitt atkvæði gegn sölu á 45,9% hlut eignarhaldsfélagsins BG12 í Bakkavör, en salan fór í gegn í janúar 2016. Arion banki átti 62% í félaginu, en aðrir stærstu hluthafarnir voru lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna átti 14,3% og Gildi 11,6%.

Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, ásamt vogunarsjóðnum Baupost keyptu bréfin fyrir ríflega 147 milljónir punda, en við skráningu bréfanna í kauphöllina í nóvember í fyrra hafði verðmæti bréfanna nærri þrefaldast í 433 milljónir punda.

Það samsvarar 63,9 milljarða króna miðað við núverandi gengi, en í ábendingu Bankasýslunnar er sagt miðað við söluandvirðið hefði Arion banki orðið á mis við tæpa 20 milljarða og þar af leiðandi ríkissjóður af um 2,6 milljarða.