*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 5. apríl 2021 10:05

Vildu fella leyfi Rio Tinto úr gildi

Nágrannar álversins í Straumsvík vildu láta fella úr gildi starfsleyfi álversins þar sem það væri ekki í samræmi við lög.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) hafnaði nýverið kröfu landeigenda Óttarsstaða I og II um ákvörðun Umhverfisstofnunar (UST), um að framlengja starfsleyfi Rio Tinto í Straumsvík um eitt ár, yrði felld úr gildi. Nefndin taldi að vísu ýmsa annmarka vera á málinu en þó ekki þannig að það réttlætti að leyfið yrði fellt úr gildi.

Landeigendur téðra jarða, það mengi inniheldur meðal annars Íslenska aðalverktaka hf., hafa áður farið í hart við álverið en árið 2010 hafnaði Hæstiréttur að bótaréttur þeirra yrði viðurkenndur vegna áhrifa starfseminnar á svokallað þynningarsvæði vegna mengunar. Það svæði teygir sig umtalsvert inn fyrir landamerki þeirra og hafa landeigendur því ekki getað nýtt landið eða byggt á því.

Málið nú snerist einnig um þynningarsvæði en í hinu kærða starfsleyfi var gert ráð fyrir slíku þrátt fyrir að ný lög um starfsemina geri ekki ráð fyrir þynningarsvæðum. Í raun þá geri þau þvert á móti ráð fyrir því að slík svæði séu bönnuð. Aldrei hafi verið veitt samþykki fyrir slíkum svæðum á jörðunum og landið ekki tekið eignarnámi. Um skerðingu á eignarréttinum væri því að ræða.

Að mati landeigenda hafði UST farið á svig við lögin með því að láta bannið við þynningarsvæðunum aðeins gilda framvirkt en ekki hafa áhrif á eldi leyfi. Að auki hefði þeim ekki verið gefinn kostur á andmælum og ætti það að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar.

UST benti á það á móti að skammt væri liðið frá því að umrædd lagabreyting tók gildi og það myndi taka tíma að yfirfara eldri starfsleyfi og koma þeim í rétt horf. Rekstur og starfsemi álvera væri gríðarlega flókinn og ekki væri hægt að smella bara fingrum og töfra fram nýtt ástand um leið. Vinnan kallaði bæði á yfirferð starfsleyfa og í einhverjum tilfellum að farið yrði yfir skipulag sveitarfélagsins sem í hlut á. Umrædd framlenging væri bráðabirgðaúrræði, sem ekki hefði borið að auglýsa eða veita andmælarétt, sem ætlað væri að gilda þar til ný ákvörðun liggur fyrir.

Afar íþyngjandi að fella leyfið úr gildi

Í niðurstöðu ÚUA sagði að framlenging leyfisins hefði byggt á undanþáguheimild sem aðeins yrði notuð í undantekningartilvikum „til þess að bregðast við sérstökum aðstæðum“. Nefndin benti einnig á að við lagabreytinguna hefði ekki verið kveðið á um lagaskil hvað varðar eldri starfsleyfi og þynningarsvæði þeirra eða mögulegan aðlögunartíma.

„Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að sérstakar aðstæður voru fyrir hendi í máli þessu. Þá eru starfsleyfi álvera sértæk, flókin og tímafrek í vinnslu og sama gildir um mengunarvarnabúnað sem settur er upp í því skyni að takmarka losun mengandi efna. Með hliðsjón af því, og eins og atvikum er hér sérstaklega háttað, verður því að telja að ákvörðun Umhverfisstofnunar um framlengingu leyfis félagsins hafi verið studd efnisrökum,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Nefndin féllst aftur á móti á að andmælaréttur jarðeigenda hefði verið brotinn. Aftur á móti væri hér á ferð tímabundið starfsleyfi, til skamms tíma og aðeins væri hægt að taka ákvörðun sem þessa einu sinni. „Þá hefur leyfishafi hagnýtt leyfi sín til álframleiðslu til fjölda ára og væri það verulega íþyngjandi fyrir hann að þurfa að stöðva starfsemi sína þar sem leyfi skorti. Eins og atvikum er hér sérstaklega háttað og að teknu tilliti til eðlis hinnar kærðu ákvörðunar þykir sá annmarki að kærendum hafi ekki verið veittur andmælaréttur því ekki eiga að leiða til ógildingar hennar,“ segir í úrskurðinum.

Kröfum landeigenda var því hafnað með þeirri undantekningu að kæru Íslenskra aðalverktaka hf. var vísað frá þar sem málflutningsumboð þótti ófullnægjandi.