Samninganefnd sveitarfélaga bauð grunnskólakennurum að fá 124.000 króna eingreiðslu þann 1. maí gegn því að þeir myndu gangast undir friðarskyldu þar til 30. júní. Auk þess yrði mótuð ný viðræðuáætlun í kjaradeilunni sem myndi ná til 30. júní.

Þetta kemur fram í fréttabréfi sem sent var á félagsmenn Kennarasambands Íslands en að því er kemur fram á heimasíðu ASÍ felur friðarskylda í sér að ekki má boða til verkfalls á meðan hún er í gildi.

Samninganefnd Félags grunnskólakennara hafnaði tilboðinu að fengnu áliti frá nýkjörinni samninganefnd en þegar tilboðið barst stóð þing Kennarasambandsins yfir.

Athygli vekur tímabil friðarskyldunnar hefði náð yfir aðdraganda og eftirmála sveitarstjórnarkosninga sem fram fara 26. maí. Friðarskyldan hefði því eflaust slegið vopn úr höndum kennara í kosningabaráttunni og á meðan samið yrði um meirihluta í sveitarstjórnum landsins.