Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í viðtali við Fréttablaðið í morgun að samkeppnislögin hér á landi séu  meira íþyngjandi en víðast hvar í Evrópu. Þess vegna séu breytingar á samkeppnislögum í frumvarpsdrögum nýsköpunar- og atvinnumálaráðherra skref í rétta átt.

„Heilt yfir erum við jákvæð, en við hefðum viljað ganga lengra,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Markað Fréttablaðsins.

Komið hefur fram sú gagnrýni á frumvarpið, meðal annars frá Gylfa Magnússyni, dósent við Háskóla Íslands, að það dragi of mikið taum stórfyrirtækja á kostnað neytenda og minni fyrirtækja. Halldór Benjamín segir þessa gagnrýni ekki eiga við rök að styðjast.

„Stærsti hluti aðildarfyrirtækja SA eru lítil og meðalstór fyrirtæki þannig að við látum hagsmuni þeirra okkur varða. Lögin ættu að vera skýr og sambærileg því sem gerist í Evrópu. Þau þurfa að feta ákveðinn milliveg, því ef þau standa í vegi fyrir eðlilegri hagræðingu í atvinnulífinu þá mun það á endanum bitna á almenningi í hærra verðlagi. Eðli málsins samkvæmt eru allir markaðir á Íslandi litlir sem ætti að kalla á meiri sveigjanleika, ekki enn meira íþyngjandi reglur heldur en eru í samkeppnislöndum okkar.“