Kaupþing lánaði helstu stjórnendum bankans og völdum starfsmönnum hans alls 43 milljarða króna án veða í gegnum fjárfestingasjóðinn Kaupthing Capital Partners II Fund (KCPII). Þessar lánveitingar voru viðbót við þá 45 miljarða króna sem starfsmenn bankans höfðu fengið að láni til að kaupa hlutabréf í honum. Því fengu starfsmenn Kaupþings hátt í 100 milljarða króna lánaða, án veða, til að fjárfesta í bankanum sjálfur og sjóði sem stjórnað var af honum. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Tölvupóstur sendur á milli meðlima í samtökum „loyal CEOa“

Í skýrslunni er birtur tölvupóstur þar sem lagt er á ráðin um þessar lánveitingar. Hann er frá Magnúsi Guðmundssyni, þáverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ármanni Þorvaldssyni, þáverandi forstjóri Kaupthing Singer&Friedlander, og til Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar. Pósturinn er sendur út þann 12. desember 2006.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að „í bréfinu kom fram hugmynd um að stjórnendurnir gætu losað sig undan persónulegri ábyrgð vegna lánanna [innsk. blaðam. lána vegna hlutabréfakaupa í Kaupþingi] þannig að Kaupþing bæri alla áhættu.“

Pósturinn er svona:

„Sæll Siggi og Hreiðar Þar sem að Ármann er búinn að ræða þetta við ykkur höfum við talað okkur saman (samtök loyal CEOa) og komist að þessari hugmynd um bréf okkar í bankanum:

1. Við stofnum SPV (hver um sig) [eignarhaldsfélag eða Special Purpose Vehicle] og setjum öll bréf og lán í það félag. 2. Við fáum viðbótarlán uppá að 90% LTV [Loan to Value, eða 90 krónur að láni fyrir hverjar 100 sem eru í félaginu þegar] sem þýðir að við tökum út einhvern pening strax. 3. Við fáum heimild fyrir að fá lánað meira ef gengi KB hækkar sem nemur 90% LTV upp að genginu 1000. Þannig að ef gengið fer yfir 1000 þá getum við ekki fengið meira lánað. 4. Bankinn hefði engin margincall á okkur og myndi taka á sig fræðilegt tap ef að yrði

Við hefðum áhuga á að nota hluta af þessum fjármagni til að setja inní Kaupthing Capital Partners (principal investment sjóður bankans) Kveðja Magnús og Ármann Eins og við höfum sagt áður þá höfum við rætt þessa hugmynd við Ingólf líka.“

Lögðu stöðugt meiri áhættu á Kaupþing og hluthafa

Í skýrslunni segir ennfremur að „Tillagan sem þarna er sett fram felst í því að stjórnendur geti innleyst áhættulausan hagnað sinn með því að leggja stöðugt meiri áhættu á bankann og hluthafa. Þeir leggja til að eignarhaldsfélög þeirra taki við bréfum sem þegar hafa verið veðsett í bankanum og fái enn frekari lán frá bankanum. Með þessu hefðu þeir getað greitt arð út úr félögunum með lánunum og veðsett alla þá hækkun sem orðið hafði á bréfunum síðan þau voru fyrst veðsett. Þess má geta að Ármann færði lán sín yfir í eignarhaldsfélag í janúar 2007 en Hreiðar hafði gert það vorið 2006.“

_____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .