Tveir nefndarmenn peningastefnunefndar, það er hagfræðiprófessorinn Gylfi Zoëga og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, töldu stýrivaxtahækkun Seðlabankans fyrir tveimur vikum of hóflega. Hefðu þeir fremur kosið að vextirnir yrðu hækkaðir um hálfa prósentu í stað 25 punkta. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar.

Í fundargerðinni er þess getið að efnahagshorfur hefðu batnað talsvert meira en spár höfðu gert ráð fyrir. Hagvöxtur hefði verið meiri en von var á og hjöðnun atvinnuleysis einnig. Þá spilaði einnig inn í að sóttvarnaaðgerðir og umsvif þeirra virtust vera á undanhaldi. Verðbólga væri enn yfir markmiði en verðbólguþrýstingur virtist á niðurleið. Sennilega héldist hún þó yfir 4% út árið en næði markmiði síðari hluta næsta árs. Skuldir heimilanna hefðu hækkað en það mætti rekja til fjölgunar fyrstu kaupa á húsnæði.

„Þá horfði nefndin til þess að áhrif tímabundinna framboðstruflana erlendis gætu þess vegna varað lengur en áður var talið og kom fram að þær hefðu hækkað kostnað við að framleiða og dreifa vörum um allan heim. Skýringuna mætti bæði rekja til kröftugri alþjóðlegrar eftirspurnar eftir neysluvörum auk þess sem framleiðslutruflanir hefðu verið í verksmiðjum og skipahöfnum víða um heim vegna meiri útbreiðslu smita. Fram kom í umræðunni að áhrif þessara framboðstruflana það sem af er ári hefðu að einhverju leyti verið vanmetin,“ segir í fundargerðinni.

Meðal þess sem rætt var var kaup bankans á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði. Nefndarmenn voru sammála um að þau hefðu heppnast vel og spornað gegn hækkun langtímakröfu á markaðnum meðan óvissan var sem mest. Þörfin á aðgerðunum hefði þó reynst minni en útlit var fyrir. Afráðið var að halda að sér höndum og hætta að leggja fram tilboð. Stýritækið yrði hins vegar enn til staðar.

Hætta á auknum verðbólguvæntingum

„Nefndin ræddi hvort halda ætti meginvöxtum bankans óbreyttum eða hækka þá um 0,25-0,5 prósentur. Helstu rök sem komu fram fyrir því að halda vöxtum óbreyttum voru þau að enn væri nokkur óvissa um áhrif núverandi bylgju farsóttarinnar á efnahagsumsvif og umfang og afleiðingar sóttvarnaraðgerða. Einnig kom fram að skýra mætti hluta verðbólgunnar með tímabundnum þáttum sem myndu fjara út á næstu misserum auk þess sem verðbólguvæntingar hefðu tekið að lækka á nokkra mælikvarða,“ segir í fundargerðinni. Þá væri einnig stutt í næsta fund nefndarinnar.

Rök með hækkun voru meðal annars þrálát verðbólga auk þess að hætta væri á aukinni alþjóðlegri verðbólgu. Það, ásamt launahækkunum innanlands, gæti leitt til þess að verðbólguvæntingar hækkuðu enn frekar.

„Rök fyrir því að taka stærra skref og hækka vexti um 0,5 prósentur voru m.a. þau að óvissan hefði minnkað frá maífundi nefndarinnar þar sem stór hluti þjóðarinnar væri nú bólusettur og ljóst væri að bólusetningin virkaði vel gegn alvarlegum veikindum af COVID-19. Ljóst væri enn fremur að tengsl milli sóttvarnaraðgerða og efnahagsumsvifa hefðu veikst og aðlögunarhæfni almennings og fyrirtækja ásamt aðgerðum stjórnvalda héldu hagkerfinu gangandi að mestu þrátt fyrir farsóttina. Þá hefði fjölgun ferðamanna verið hraðari í sumar og útgjöld þeirra meiri en búist hafði verið við auk þess sem hagvaxtarhorfur hefðu batnað umtalsvert,“ segir í fundargerðinni.

Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra um að hækka stýrivexti en sem fyrr segir voru tveir nefndarmenn af fimm á þeirri skoðun að skrefið væri helst til hóflegt.