Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og fyrrverandi borgarstjóri, segir að hún hafi lagt áherslu á það skömmu áður en hún hætti sem borgarstjóri að tryggja að fjárútlát borgarinnar vegna tónlistarhússins Hörpu yrðu ekki meiri en samið var um þegar aðkoma Reykjavíkurborgar að byggingu og rekstri hússins var ákveðin. Hún sendi Katrínu Jakobsdóttur, menntaog menningarmálaráðherra, bréf 10. júní í fyrra þar sem segir m.a. að engar fyrirliggjandi heimildir séu fyrir því að skuldbinda félög í eigu ríkis og borgar umfram fyrri samþykktir, hvorki með hlutafjáraukningu eða með öðrum leiðum.

„Ég lagði áherslu á að Reykjavíkurborg myndi nálgast þetta verkefni á grundvelli sömu efnisatriða og samið var um löngu fyrir mína tíð sem borgarstjóri. Við hrunið stóðum við frammi fyrir því að hætta alveg við byggingu hússins og stöðva framkvæmdir eða halda þeim áfram. Ákvörðunin um að halda byggingu hússins áfram byggði ekki síst á því að það höfðu verið gerðir skuldbindandi samningar sem þurfti að standa við, auk þess sem vilji ríkis og borgar til þessa verkefnis hafði lengi legið fyrir. Sérfræðingar borgarinnar mátu stöðuna með þeim hætti að það væri farsælla, þegar allt væri tekið, að halda áfram byggingu hússins, ekki síst þar sem mikill kostnaður hefði einnig verið fólginn í því að hætta við eða fresta framkvæmdum. Undir þessi sjónarmið tók borgarstjórn með samþykkt sinni og vilja til að halda áfram verkefninu með ríkisvaldinu, en án frekari fjárframlaga en áður höfðu verið afgreidd af hálfu borgarinnar,“ sagði Hanna Birna í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Árlegt framlag Aðkoma borgarinnar að rekstri Hörpu er þátttaka í árlegu 800 milljóna króna rekstrarframlagi ásamt ríkinu. Upphæðin skiptist til helminga. Samið hefur verið um framlagið til 30 ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir tölublöð.