Viðræður voru milli Landsbankans og Íslandspósts (ÍSP) um að lánveitingar bankans til fyrirtækisins næmu allt að 2,9 milljörðum króna áður en bankinn lokaði á frekari lánveitingar til Póstsins. Þetta má lesa úr fundargerðum stjórnar ÍSP.

Blaðamaður óskaði eftir því um þetta leyti í fyrra að fá afrit af fundargerðum stjórnar ÍSP. Fengust þær afhentar en félagið hafði þá afmáð ýmsar upplýsingar, á þriðja hundrað atriða, úr fundargerðunum þar sem um viðkvæmar upplýsingar væri að ræða. Sú afgreiðsla var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Eftir meðferð nefndarinnar stóðu aðeins átján atriði eftir sem heimilt var að afmá og bættust tæplega þrjátíu blaðsíður við fundargerðirnar er þær fengust afhentar á ný. Í september 2018 fékk ÍSP 500 milljóna króna neyðarlán frá eiganda sínum sem bar að endurgreiða ári síðar.

Áður en til neyðarlánveitingarinnar kom höfðu staðið yfir viðræður milli ÍSP og Landsbankans um að breyta vaxtakjörum eldri lána, breyta yfirdráttarlánum í langtímalán og töku nýs yfirdráttarláns og framkvæmdaláns vegna byggingar nýs pósthúss á Selfossi og viðbyggingar við flutningamiðstöð fyrirtækisins að Stórhöfða. Síðarnefndu framkvæmdirnar tvær kostuðu félagið ríflega milljarð króna. Á sama tíma var veðrými félagsins uppurið og daglegur rekstur keyrður á yfirdrætti. Í upphafi september í fyrra átti ÍSP fyrir launum en hins vegar ekki launatengdum gjöldum né kostnaði. Varð það úr að Landsbankinn neitaði að lána Póstinum meiri fjármuni.

„[Þáverandi forstjóri] sagði lánasamninginn [við ríkið] óvenju ítarlegan og væru ákveðin skilyrði fyrir útborgun, stíf skilyrði vegna vanefnda og skilyrði vegna sérstakra skuldbindinga. […] Á móti kæmi að ÍSP væri með sterkan bakhjarl sem gerði sér grein fyrir yfirvofandi greiðsluþroti í febrúar-mars [2019] nema eigandinn komi inn með viðbótarhlutafé sem nemur ófjármagnaðri byrði 2018 og 2019 ef ekki kemur til þjónustusamningur við ríkið fyrir þann tíma,“ segir í fundargerð af símafundi stjórnar í september 2018 þar sem neyðarlánið var til umræðu.

Óbirt uppgjör

Athygli vekur að árshlutauppgjör ÍSP, fyrir fyrri helming þessa árs, hefur enn ekki verið birt en venjan er að það sé gert í kringum mánaðamótin ágúst september. Samkvæmt hlutafélagalögum ber opinberum hlutafélögum að kunngera slík uppgjör með opinberum hætti. Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi að hann treysti sér ekki til að segja með nákvæmum hætti hvað veldur töfinni. Hann geti þó sagt að „verið sé að sannreyna tiltekin atriði“.

Stór þáttur í skellinum í fyrra var sú ákvörðun ríkisins, eiganda ÍSP, að hætta að senda bréf á árinu. Áætlanir fyrirtækisins höfðu gert ráð fyrir þeim tekjum sem síðan skiluðu sér ekki. Annað atriði sem nefnt hefur verið til sögunnar eru áhrif „Kínasendinga“ en við þeim hefur verið  brugðist með plástrun póstlaganna. Pósturinn hefur frá í sumar haft heimild til að innheimta sérstakt gjald af erlendum sendingum, 400 krónur af sendingum frá Evrópu en 600 krónur af sendingum frá öðrum ríkjum, en því er ætlað að mæta tapi af þessum þætti. Athyglisvert er að í fundargerðunum er þess getið að tap sé vegna bréfasendinga til landsins en „örlítill hagnaður af bögglum“. Þrátt fyrir það leggst gjaldið jafnt á bréf og böggla. Eftirlitsstofnun EFTA hefur haft umrætt gjald til skoðunar sem og neyðarlánveitinguna með það að marki að kanna hvort það standist EES-samninginn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .