Fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson, sem er einn af fjárfestum bakvið byggingu lúxusíbúða í Austurhöfn, segir að framkvæmdirnar í Austurhöfn séu vel á veg komnar. Hann segir að þeir sem standi að verkefninu vonist til þess að framkvæmdum ljúki í byrjun næsta árs.

„Við höfum nýlokið við að setja upp sýningaríbúð, sem er mjög mikilvægt til að geta sýnt mögulegum kaupendum öll þau gæði sem íbúðirnar búa yfir. Það var einnig hugmyndin á bakvið EDITION hótelið að opna höfnina fyrir almenningi og ég vildi tryggja að sú yrði raunin í Austurhöfn. Við vildum að Austurhöfn kæmi almenningi til góða og ég tel að okkur hafi tekist það með því að hafa almenningsrými á jarðhæðunum sem munu hýsa verslanir, kaffihús og veitingastaði. Við áttuðum okkur á því frá upphafi að þessu verkefni fylgdi borgaraleg ábyrgð."

Að sögn Eggerts verður verð íbúðanna ekki gefin upp opinberlega og því verði engar hefðbundnar fasteignaauglýsingar gerðar fyrir íbúðirnar.

„Við erum sannfærðir um að við séum að bjóða kaupendum upp á íbúðir í hæsta klassa á góðu verði.  Ég get þó sagt frá því að verð ódýrustu íbúðanna verði væntanlega um 800 þúsund krónur á hvern fermetra og a.m.k. helmingur íbúðanna verður með fermetraverð á undir milljón. Dýrustu íbúðirnar okkar eru verðlagðar lægra en sumar aðrar hágæða íbúðir sem hafa farið í sölu á Íslandi. Íbúðirnar munu líka vera ódýrari en svipaðar íbúðir víða um heim. Stærstu íbúðirnar okkar munu eflaust kosta 18-40% af því sem svipaðar íbúðir kosta í stórborgum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Ég hef komið reglulega til Íslands síðan seint á 10. áratugnum og það hefur alltaf komið mér á óvart hversu ódýrar hágæða íbúðir eru hér á landi. En ég tel að þetta muni breytast með tíð og tíma og að eftir nokkur ár verði verðbilið á milli hágæða íbúða á Íslandi og í öðrum stórborgum orðið minna. Það hefur þegar átt sér stað í hótelgeiranum, en í dag er verðið á hótelherbergjum á Íslandi ekki ósvipað því sem gengur og gerist í stærri borgum í Evrópu eða Bandaríkjunum."

Spurður um hvort þegar hafi borist fyrirspurnir frá mögulegum kaupendum segir Eggert að svo sé. „Bæði innlendir og erlendir aðilar hafa sýnt þessu áhuga. Miðað við fyrirspurnir er líklegt að kaupendur muni bæði vera Íslendingar, sem eru búsettir hér á landi eða erlendis, sem og erlendir aðilar."

Ætlar þú að kaupa þér íbúð í Austurhöfn?

„Ég og konan mín eigum einstaka íbúð í Reykjavík og konan mín vill ekki flytja þaðan," segir Eggert og bætir kíminn við: „Happy wife equals happy life. Hins vegar er ég með augastaða á einni íbúð í Austurhöfn sem fjárfestingu vegna þess að svona tækifæri koma ekki oft."

Nánar er rætt við Eggert í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .