Luc Frieden, fyrrverandi ráðherra ríkisfjármála í Lúxemborg, átti í desember árið 2008 og í febrúar árið eftir í viðræðum við fjárfestingaráð Líbíustjórnar (LIA - Libyan Investment Authority) um möguleikann á því að Líbíumenn keyptu starfsemi Kaupþings í Lúxemborg. Þá voru bandarísk stjórnvöld innvikluð í viðræðurnar og hvöttu þau til þess að fjárfestingarsjóður frá Líbíu fengi að fjárfesta í Kaupþingi í Lúxemborg.

Fjallað er um málið í netmiðlinum Kjarnanum í dag. Þar er fjallað um tvær skýrslur um málið. Þar kemur m.a. fram að fundirnir voru tveir. Sá fyrri stóð stutt yfir, í 20 mínútur, en hinn í eina og hálfa klukkustund. Á fundunum var al­mennt rætt um möguleikann á því að peningar frá Líbíu skiluðu sér til Lúxemborgar til þess að styrkja grunn fjár­málakerfisins. Í annarri skýrslunni segir að áhugi Líbíumanna á því að fjárfesta í Kaupþingi átti rætur að rekja til viðskipta nokkrum mánuðum fyrr þegar sjóður LIA keypti hlut í Fortis­bankanum með 21 prósents afslætti miðað við opinbert markaðsverð.

Haft er upp úr skýrslunum að ástæðan fyrir því að fjárfestingin gekk á endanum ekki í gegn var m.a. sú að tjórnvöld í Lúxemborg höfðu ekki stuðning frá ríkisbankanum BCEE til þess að liðka fyrir viðskiptunum en aðkoma bankans var nauðsynleg til þess að kaup LIA á starfsemi Kaupþings hefðu getað orðið að veruleika.