Pawel Bartoszek, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar upplýsir um það í facebook spjalli við Illuga Jökulsson að Vinstri grænir hefðu viljað hækka skatta, bæði mikið og marga, af því sem hann kallar hugmyndafræðilegum ástæðum.

Illugi gagnrýnir Viðreisnarmenn á sinni síðu fyrir að láta stjórnarmyndunarviðræður renna út í sandinn til þess að passa upp á að sjómenn með 2,5 milljón króna laun á mánuði fengju ekki ögn hærri skatta og finnur Pawel sig knúinn til að svara því nú í morgunsárið.

Hugmyndafræðilegur skattur sem myndi litlu skila

„Áður en við hlaupum að þeirri ályktun að hægt hefði verið að gera eitthvað fyrir heilbrigðiskerfið með því að leggja á hátekjuskatt á tekjur yfir segjum, 1,5 milljónir langar mig að koma eftirfarandi á hreint: Tekjur af slíkum skatti myndu ná einum milljarði, það er mjög lítið,“ segir Pawel.

„Ef við færum hærra væri það enn minna. Þetta yrði fyrst og fremst symbólísk aðgerð, sem VG af hugmyndafræðilegum ástæðum styður, en ég af hugmyndafræðilegum ástæðum styð ekki.“

Vildu hærri skatta og fleiri, m.a. Tobin skatt

Pawel tekur þó fram að andstæða við skatta á hátekjur hefði ekki verið úrslitaatriði, hægt sé að semja um ýmislegt og allir þurfi að geta gefið eftir í svona aðgerðum.

„Vandinn er hins vegar sá að heildarútgjaldahugmyndir annarra flokka voru ansi háar og þær hefði ekki verið hægt að fjármagna með symbólísku hálfkáki, þarf hefði þurft til dæmis hærri skatta á millitekjur, hærri vask, komugjöld , hærri fjármagnstekjuskatt, tobin skatt og ég veit ekki hvað,“ segir Pawel.

„Allt þetta lagði VG til, enda heiðarlegt fólk en já hugmyndir um heildarútgjöld ríkissjóðs þeirra og okkar og fjármögnun þeirra hugmynda reyndust að sinni ansi ólíkar, til viðbótar þokaðist hægt í hugmyndum um aðrar kerfisbreytingar.“

Tobin skattur, er skatthugmynd frá hagfræðingnum James Tobin, sem legst á öll gjaldeyrisviðskipti.