Von er á tillögum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á komandi þingi sem hafa það að marki að fækka sveitarfélögum landsins. Sveitarfélög fái nokkur ár til að íhuga sameiningu áður en hún verður gerð að skyldu til að ná lágmarksíbúaþröskuli.

„Það er viðbúið að það verði lagt fram frumvarp í haust þar sem kveðið verður á um lágmarksíbúafjölda. Þessi tvö sveitarfélög verða undir þeim mörkum. Við vildum því gera þetta á okkar forsendum og vera á undan þróuninni,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Sveitarfélagið hefur hafið formlegar viðræður við Þingeyjarsveit um sameiningu en áætlað er að íbúar muni kjósa um sameininguna að um átján mánuðum liðnum. Þar sem báðar sveitarstjórnir hafa samþykkt slíkar viðræður mun ferlinu ljúka með kosningu þó það kæmi upp úr dúrnum að samninganefndir þeirra legðust gegn henni.

„Við teljum að sem stendur sé ekki nægilegur fjárhagslegur hvati til þess að sameina sveitarfélög og að jöfnunarsjóðurinn þurfi að koma frekar að málum,“ segir Þorsteinn. Bendir hann á að sveitarfélög standi almennt betur en fyrir nokkrum árum síðan en að víða hafi verið skorið niður til að ná þeim árangri. „Það hefur verið ákveðin óánægja með jöfnunarsjóðinn og að hann sé ekki að skila sínu hlutverki sem skildi. Það hefur verið skorið niður í viðhaldi og ýmsum verkefnum og þar gæti sjóðurinn komið til móts við okkur.“

Heimastjórnir í byggðakjörnum

Á Austurlandi standa yfir viðræður fjögurra sveitarfélaga um að sameinast undir vinnuheitinu Sveitarfélagsið Austurland. Þar eru á ferð Fljótsdalshérað, Djúpavogshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Borgarfjarðarhreppur. Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur kusu að taka ekki þátt í viðræðunum. Viðræðurnar eru á lokastigi og verður kosið um sameininguna 26. október.

„Það var skipaður starfshópur með fulltrúum frá hverju sveitarfélagi. Ferlið hefur allt verið opið og kynnt náið fyrir íbúum sveitarfélaganna,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri í Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfshópsins.

Miðað við tillögur þær sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir því að ný sveitarstjórn taki við í hinu sameinaða félagi. Hins vegar verði starfandi nokkurs konar „heimastjórnir“ innan eldri hreppamarka sem munu hafa afgreiðsluvald á málum sem snerta nærsamfélagið.

„Heimastjórnirnar munu telja þrjá fulltrúa hver. Tveir eru kosnir beinni kosningu af hverju byggðarlagi samhliða sveitarstjórnarkosningum. Sá þriðji á sæti í sveitarstjórn og er skipaður af henni. Þær munu hafa á sinni könnu til að mynda umsagnir um hitt og þetta í nærsamfélaginu sem og endanlega afgreiðslu deiliskipulagsmála í sinni sveit,“ segir Björn.

Þá verður stefnt að því að efla stjórnsýsluna með ýmsum hætti. Starfandi fagnefndum og ráðum verði fækkað en fulltrúum í þeim fjölgað sem og fundum. „Fagnefndirnar munu funda á dagtíma og kjörin verða talsvert önnur en þau sem áður hafa boðist. Þeir sem gefi sig í þessi störf geti jafnvel haft forsendur til að taka þetta á sig sem hlutastarf,“ segir Björn.

Leiðrétting: Í prentútgáfu fréttarinnar var Björn Ingimarsson ranglega titlaður bæjarfulltrúi en ekki sveitarstjóri. Leiðréttist þetta hér með og afsökunar beðist á mistökunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .