*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 10. janúar 2018 12:12

Vilhjálmur ætlar í borgina

Fyrrverandi þingmaður Suðvesturkjördæmis og lektor við HÍ, Vilhjálmur Bjarnason vill leiða Sjálfstæðisflokkinn í borginni.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Vilhjálmur Bjarnason lektor við Háskóla Íslands hefur tilkynnt um að hann bjóði sig fram í leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor að því er RÚV greinir frá.

Framboðsfresturinn rennur út klukkan 16:00 í dag, en nokkuð er síðan borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir lýstu yfir framboðum sínum. Viðskiptablaðið greindi svo frá því í gær að Eyþór Arnalds fyrrverandi bæjarstjóri í Ölfus byði sig einnig fram, og nú hefur Vilhjálmur bæst í hópinn.

Vilhjálmur féll út af þingi í síðustu kosningum, en þar hafði hann verið frá árinu 2013 fyrir Suðvesturkjördæmi, en hann hafði starfað við kennslu í HÍ og Iðnskólanum í Reykjavík frá 1989 fram að því. Áður hafði hann starfað hjá Útvegsbanka Íslands, meðal annars sem útibússtjóri í Vestmannaeyjum á árunum 1980 til 1989.