„Við erum að reyna að kortleggja stöðuna, leita eftir upplýsingum það hvað bankinn var með að veði og hvað hann lánaði tengdum aðilum og kanna hvort grundvöllur sé fyrir skaðabótamáli fyrir einhverja,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta og lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Á föstudag verður mál hans tekið fyrir gegn slitastjórn Landsbankans og þrotabúum Fjárfestingarfélagsins Grettis, Samson eignarhaldsfélagi og þrotabúi Björgólfs Guðmundssonar, eins af helstu hluthöfum gamla Landsbankans. Björgólfur var jafnframt formaður bankastjórnar Landsbankans.

Vilhjálmur segir að þótt Samtök fjárfesta standi málarekstrinum þá þurfi einhvern sem eigi lögvarðra hagsmuna að gæta og því sé farið í málið í hans nafni. „Við verðum því að leggja hausinn á mér undir,“ segir hann.

Vilhjálmur viðurkennir að Samtökin viti ekki hvað málið muni leiða í ljós. Þó gruni hann að lán til tengdra aðila hafi á sínum tíma verið langt yfir lögbundnum mörkum um 25% af áhættugrunni. Þær upplýsingar segir hann geta bent til þess hvort hlutafélagalög hafi verið virt.

Glitnir ógjaldfær í febrúar 2008

Þetta er sambærilegt mál og Samtök fjárfesta fóru í gegn gamla Glitni. Niðurstaða málsins leiddi í ljós að bankinn hafði lagt allt að 40% af eigin bréfum að veði og vildi koma í veg fyrir að þau færu á markað. Það geti flokkast til brota á hlutafélagalögum og lögum um fjármálafyrirtæki. „Allt er undir og bankinn því algjörlega óstarfhæfur strax í febrúar árið 2008,“ segir Vilhjálmur og bendir á að í sama mánuði hafi Bjarni Benediktsson, nú formaður Sjálfstæðisflokksins, selt hlutabréf sín í Glitni fyrir rúmar 120 milljónir króna.