Á miðöldum voru stjórnvöld áköf í að komast yfir eignir efnaðra ekkna. Þá var brugðið á það ráð að saka þær um galdra og brenna þær þannig að hægt væri að komast yfir eignir þeirra. Líkja má skattastefnu íslenskra stjórnvalda við þessa þróun, þau eru áköf í að komast yfir eignir auðugra einstaklinga.

Þetta sagði Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, á Skattadegi Deloitte og Viðskiptaráðs sem nú stendur yfir. Í erindi sínu fjallaði Vilhjálmur um skattlagningu fjáreignatekna.

Vilhjálmur sparaði ekki stóru orðin í erindi sínu. Hann sagði að það að mæta á fund hjá nefndarsviði Alþingis væri stundum eins og að míga á mel. Illa gengi að leiðrétta hluti fyrir alþingismönnum sem virðast ekki skilja muninn á fjáreign og fjármagni. Spyrja má hvort ekki sé kominn tími til að skattborgarar stofni sín eigin samtök.

Í erindi sínu fór Vilhjálmur yfir nokkur atriði tengd skattkerfinu, m.a. auðlegðarskattinn. Vilhjálmur hélt áfram í skólalýsingunum og sagði skattinn minna á kennarann sem sneri upp á eyrað á nemandanum til að sjá hvort hann gæti ekki gert aðeins betur. Með auðlegðarskattinum væri verið að snúa upp á eyrað á fjáreigendum. Þeir gætu þolað 2-3 ár en til lengri tíma fer skattlagningin að svíða. Vilhjálmur tók þó fram að hann væri ekki greiðandi auðlegðarskatts.

Vilhjálmur gagnrýndi sérstaklega að við ákvörðun auðlegðarskattsins væru talin hlutabréf í félögum skráðum í Kauphöll fram á markaðsvirði í árslok. Vilhjálmur sagði að þetta myndi minnka áhuga almennings á því að taka þátt í hlutabréfaviðskiptum.

Þá sagði Vilhjálmur að hugtakið auðlegðarskattur væri ekki til í kennslubókum um fjármál. Hann væri þó til í einhverri myndi í Noregi og Frakkland, en afar fáir Frakkar greiddu skattinn þar sem mjög auðvelt sé að koma undan því. Hann sagðist þó heyra á íslenskum stjórnmálamönnum að stefnt væri að 5% eignarskatti á Íslandi.