Viðhorf til þeirra sem fara fram á arðgreiðslur út úr fyrirtækjum er oft eins og „hardcore porno“. Litið er á þá sem glæpamenn og arðgreiðslustefnan er tabú sem ekki má ræða.

Þetta sagði Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, á morgunverðarfundi Kauphallarinnar, Landssamtaka lífeyrissjóðanna og Samtaka fjárfesta sem nú stendur yfir.

Hann rifjaði upp sögur af því þegar hann á fyrri árum spurðist fyrir um arðgreiðslustefnu á aðalfundum fyrirtækja. Hann hefði verið litinn hornauga fyrir vikið og mörgum hafi fundist óþægilegt að taka undir það að rétt væri að greiða út arð úr félaginu.

Vilhjálmur sagði að gerð væri krafa um starfskjarastefnu í skráðum fyrirtækjum en ekki arðgreiðslustefnu. Réttar væri að breyta því sagði Vilhjálmur. Á aðalfundum skráðra fyrirtækja á arðgreiðslustefna ekki að njóta minna svigrúms en starfskjarastefna. Ekki sé líðandi að hluthafar mæti alltaf afgangi á aðalfundum eða í stefnu stjórnar fyrirtækjanna.

Vilhjálmur sagði að það hefði liðist allt of lengi að hluthafar félaga væru látnir mæta afgangi. Þegar fólk fjárfestir í skráðum félögum væri viðkomandi að binda vonir til þess að ávaxta fé sitt í formi peninga og til þess ættu stjórnir skráðra félaga að hugsa. Hann minnti á að arðgreiðslustefna fæli ekki í sér loforð, þess vegna ættu fyrirtæki að vera óhrædd við það að móta sér og kynna opinberlega arðgreiðslustefnu.

Í öðru samhengi nefndi Vilhjálmur Icelandair Group. Hann sagði að rekstur félagsins gengi vel um þessar mundir, félagið færi búið að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og nú þyrftu hluthafar að þrýsta á um að fá ávöxtun af því fjármagni sem þeir hefðu fjárfest í félaginu. Þannig væru lífeyrissjóðirnir stór aðili í félaginu sem ættu að reyna að ávaxta fjármögnun sína.