Vilhjálmur Egilsson hefur verið ráðinn rektor Háskólans á Bifröst frá 1. júlí næstkomandi og mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA en Vilhjálmur hefur verið framkvæmdastjóri samtakanna frá 15. mars 2006 eða í sjö ár.

Vilhjálmur er doktor í hagfræði frá University of Southern California í Los Angeles. Hann var ráðuneytisstjóri í Sjávarútvegsráðuneytinu 2004-2006 og sat í Framkvæmdastjórn AGS á árinu 2003.  Áður var Vilhjálmur framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands og alþingismaður fyrir Norðurland vestra.

„Samtök atvinnulífsins óska Vilhjálmi góðs gengis í nýju starfi og telja starfsemi Háskólans á Bifröst afar mikilvæga fyrir íslenskt atvinnulíf. Samtök atvinnulífsins eru meðal bakhjarla Háskólans á Bifröst og hafa stutt við hann og munu halda því áfram, sérstaklega til uppbyggingar rannsókna í þágu atvinnulífsins,“ segir í tilkynningu SA.