Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í leiðara fréttabréfs samtakanna að kjarasamningarnir sem undirritaðir voru í febrúar síðastliðinn hafi verið gerðir á þeim forsendum að kaupmáttur launa héldist og verðbólga færi lækkandi.

„Ekki einu sinni kraftaverk getur komið í veg fyrir að þær forsendur bresti,“ segir Vilhjálmur en leiðarinn er birtur á vef samtakanna.

Hann segir SA og verkalýðshreyfinguna hafa verið í viðvarandi samskiptum og umræðum, formlegum sem óformlegum, um framvinduna.

„Það hefur komið fram mikill vilji til ábyrgrar framgöngu samningsaðila við þessi erfiðu skilyrði,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir einstaka kjarasamninga sem gerðir hafa verið síðar í samningalotunni hafa flesta verið ásættanlega með hliðsjón af því sem fyrr hafði verið gert og bætir því við að lægri kaupmáttur og undanhald í lífskjörum þjóðarinnar og getu atvinnulífsins séu staðreyndir sem vinna þurfi úr.

„Engum er í hag að fara út í víxlhækkanir launa og verðlags í gamla stílnum. Fyrst er að tryggja atvinnuna eins og kostur er og byggja undir verðmætasköpunina. Það verður sá grunnur sem sækja þarf fram á,“ segir Vilhjálmur.

Í lok greinar sinnar segir Vilhjálmur að á næstu mánuðum muni SA og verkalýðshreyfingin auka enn á samskipti sín vegna þróunar atvinnumála og framlengingar kjarasamninganna. Hann segir mikilvægt að viðhalda þeirri „góðu samstöðu sem tókst síðastliðinn vetur bæði innan atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar og samstöðu með stjórnvöldum.“

„Mikilvægasta verkefnið er að skapa atvinnulífinu viðunandi starfsgrundvöll með aðgangi að erlendum fjármagnsmörkuðum og eðlilegum kjörum. Síðan þarf að efla atvinnulífið með fjárfestingum og hagvexti á næstu árum en þar bíða stór verkefni m.a. í virkjunum og orkunýtingu,“ segir Vilhjálmur að lokum.