Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir stýrivaxtahækkun Seðlabankans út úr öllum kortum.

„Ég hefði talið að stýrivaxtahækkun sé óþörf. Ég tel að hún skapi mikil vandræði í atvinnulífinu og auki á þann rekstrarvanda sem er fyrir og kalli bara á fleiri gjaldþrot og meiri afskriftir að kröfum. Ég tel að það sem að skipti mestu máli til að halda fjármagni í landinu sé ekki hvort vextir eru hærri eða lægri heldur fyrst og fremst hvort menn hafi trú á framtíðargengi krónunnar – hvort það hækki eða lækki,“  segir Vilhjálmur, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann telur stýrivextina ekki forsendu fyrir styrkingu krónunnar:

„Með því að spila skynsamlega úr þessum gjaldeyrisvarasjóði væri hægt að koma krónunni í hækkunarferil og samhliða því að koma gjaldeyrisviðskiptum aftur í gott horf og fjármálaþjónustunni í lag þá kæmumst við upp úr þessu.“

Hann segir stýrivexti hafa verið það háa í svo langan tíma að þeir skipti ekki lengur öllu máli fyrir gengi krónunnar. „Menn halda að ef vextirnir verða ekki hækkaðir setji það þrýstingu á krónuna á þann hátt að menn selji eignir í íslenskum krónum og kaupi gjaldeyri. En vextir eru búnir að vera svo háir svo lengi að þeir skipta ekki öllu máli.“

Vilhjálmur vildi ekki spá fyrir um frekari hækkun stýrivaxta á næstunni: „Ég þori ekki að vera með væntingar í því sambandi vegna þess að ég taldi að þessi hækkun væri algjörlega óþörf. Ég vil ekki reyna að spá því hvar menn enda á þeirri vitleysu braut sem þeir eru komnir á,“ segir Vilhjálmur  og ennfremur:

„Ég hef trú á því að einu áhrifin af vaxtahækkun verði skaðleg.“