Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) segir framkvæmdastjórn SA hafa átt gagnlega fundi með embættismönnum Evrópusambandsins undanfarna daga.

Eins og áður hefur komið fram er framkvæmdastjórn SA núna stödd í Brussel.

Vilhjálmur segir í samtali við Viðskiptablaðið að í Brussel hafi menn einnig áhyggjur af þróun mála á fjármálamörkuðum. Fyrr í dag fundaði framkvæmdastjórn SA með sérfræðingum ESB á fjármálasviði um stöðuna á fjármálamörkuðum.

Vilhjálmur segir aðspurður að gjaldeyrismál Íslands komi upp í umræðunum við menn í Brussel.

„Þau mál koma auðvitað upp í umræðunum,“ segir Vilhjálmur.

„En við fáum sömu svör og þingmennirnir hafa fengið, það er að Ísland geti ekki tekið upp evru án þess að vera meðlimur að sambandinu.“

Vilhjálmur segir að fundirnir hafi verið mikilvægir til að auka þekkingu framkvæmdastjórnarinnar á Evrópusambandinu. Hún hafi meðal annars hitt embættismenn á sviði samkeppnismála og orkumála svo eitthvað sé nefnt.

Framkvæmdastjórn SA mun eiga fundi með starfsmönnun ESB í dag og næstu tvo daga.