Á árunum 1980-1995 jókst landsframleiðslan á Íslandi að jafnaði um 2% árlega, en á árunum 1995-2009 um 3,2% að jafnaði, og er þá 10% fall á þessu ári meðtalið.

Meginástæðan fyrir slökum árangri á fyrrnefnda tímabilinu voru rangar ákvarðanir stjórnvalda, skortur á umbótavilja og lausatök í stjórn efnahags- og atvinnumála.

Þetta kemur fram í grein Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA) í fréttabréfi samtakanna.

Þar segir Vilhjálmur að á síðara tímabilinu, og í aðdraganda þess, höfðu stjórnvöld metnað og framsýni sem skilaði þjóðinni áfram og staða hennar, þrátt fyrir mikið áfall nú, er nægilega sterk til þess að komast yfir erfiðleikana og skipa sér á ný í fremstu röð meðal mestu velmegunar- og velferðarþjóða heims.

Þá minnir Vilhjálmur á að Samtök atvinnulífsins hafa bent á fjögur brýn úrlausnarefni til að taka á fyrir atvinnulífið; veruleg lækkun vaxta, afnám gjaldeyrishafta, að öflugir erlendir aðilar úr hópi kröfuhafa eignist bankana og aðgerðir gegn atvinnuleysi.

Í kaflanum um bankana segir Vilhjálmur það deginum ljósara að ríkisbankaleiðin sé ófær.

„Slíkir bankar munu ekki fá eðlilegan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum næstu árin og geta þar með ekki þjónað íslenskum fyrirtækjum og almenningi með viðunandi hætti,“ segir Vilhjálmur.

„Við horfum líka á hið hefðbundna ríkisbankamynstur vera að þróast með 63 aftursætisbankastjórum á Alþingi, þar sem hver hefur sinn viðskiptavinahóp, og ótal slíka bankastjóra utan þings, sem allir telja sig vita betur en bankastarfsmenn hvernig á að reka banka og hverjum og á hvaða kjörum á að veita fyrirgreiðslu.“

Þá segir Vilhjálmur stjórnvöld hafi því miður verið að fara inn á brautir sem eru líklegar til þess að lenda í miklum ófærum.

„Ber þar hæst hugmynd um sérstakt eignarhaldsfélag á vegum ríkisins til þess að halda utanum eignarhluti í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum sem þess vegna geta verið mörg helstu fyrirtæki landsins. Burtséð frá því hvers vænta má í rekstrarlegum árangri þessara fyrirtækja þegar stjórnmálamennirnir fara að hafa skoðanir á einstökum þáttum í rekstri fyrirtækjanna og setja þeim pólitískar skorður þá vekur þetta ugg um að samkeppnislögin verði beygð eftir hentugleikum þegar þessi fyrirtæki ganga ekki eins vel og til er stofnað,“ segir Vilhjálmur.

Sjá nánar á vef SA.