*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 4. nóvember 2011 10:09

Vilhjálmur Egilsson: Næst verður krafist hærri launa

Komist ekki jafnvægi á í efnahagslífinu þá verða næstu kjarasamningar smámunir miðað við þá síðustu, segir Vilhjálmur Egilsson.

Ritstjórn
Vilhjálmur Egilsson.
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Þetta var í síðasta sinn sem við gerum svona lága samninga," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann mótmælti því harðlega sem fram kom á fundi Viðskiptaráðs um Peningamál í dag að síðustu kjarasamningar hafi falið í sér of miklar launahækkanir sem hafi smitað frá sér út í verðlag og þrýst verðbólgu upp. Næstu kjarasamningar munu hljóða upp á hærri launahækkanir en í fyrra.

Vilhjálmur rifjaði upp að aðilar vinnumarkaðarins, þar á meðal Samtök atvinnulífsins, hafi hoft á 4,0 til 5,0% hagvöxt á hverju ári en ekki 2,0-2,5% meðalvexti líkt og Seðlabankinn reiknar með. „Þetta er metnaðarstig Seðlabankans og allir virðast ánægðir með það," sagði Vilhjálmur.

Síðustu kjarasamningar hljóðuðu upp á 13% hækkun launa á þremur árum.

Vilhjálmur sagði mikilvægt hagkerfinu af stað. Takist ekki að koma jafnvægi á hagkerfið árið 2014 megi reikna með enn hærri launakröfum. „Síðustu samningar verða smáræði í samanburði," sagði Vilhjálmur.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, ítrekaði þá skoðun sína að síðustu launahækkanir aðila vinnumarkaðarins hafi verið of háar. Þær hafi krafist meira en 4-5% hagvaxtar.

„Það sem þarf að eiga sér stað í þessu þjóðfélagi er að flytja framleiðsluþætti úr innlendum þætti í útflutningsgeira. Ein leiðin til að það gerist er að launahækkanir verði meiri í útflutningsgeiranum," sagði aðalhagfræðingurinn og benti á að síðustu kjarasamningar tefji fyrir þessari tilfærslu og aðlögun íslensks atvinnulífs.