Stjórn Samtaka atvinnulífsins hefur ákveðið að ráða Vilhjálm Egilsson í stöðu framkvæmdastjóra samtakanna, í stað Ara Edwald sem senn tekur við stöðu forstjóra 365 miðla.

Vilhjálmur hefur gegnt stöðu ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu frá ársbyrjun 2004. Áður starfaði hann meðal annars fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á árunum 2003-2004, sem framkvæmdastjóri Verzlunarráðs Íslands á árunum 1987-2003, sat á Alþingi á árunum 1991-2003 og starfaði hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, eins af forverum Samtaka atvinnulífsins, á árunum 1982-1987.

Vilhjálmur lauk cand. oecon prófi frá Háskóla Íslands árið 1977, M.A. prófi í hagfræði frá University of Southern California árið 1980 og lauk doktorsgráðu í hagfræði frá sama skóla árið 1982. Hann er kvæntur Ragnhildi Pálu Ófeigsdóttur og eiga þau þrjú uppkomin börn.