„Ríkið gæti vel greitt sér 50 milljarða króna í arð út úr Landsbankanum. Hann er með alltof hátt eiginfjárhlutfall og gæti staðið sterkur eftir,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Vilhjálmur sagði á fundi SA sem nú stendur yfir í Hörpu að bankarnir þurfi eigendur sem hugsi um hag þeirra. Ríkið, sem ekki hafi mótað framtíðarfyrirkomulag fjármálageirans eftir hrun, sé ekki heppilegur eigandi. Það eigi því að selja hlut sinn í Landsbankanum.

Þá telur hann heppilegt að einn, jafnvel tveir, erlendir bankar, hefji rekstur hér:

„Það hefur í för með sér samkeppni og aga. Fjármálakerfið hér er alltof dýrt, ekki síst þegar það er lokað eins og hér.“