Það er algjört forgangsmál fyrir atvinnulífið að leysa úr þeim ógöngum sem bankamálin hafa komist í. Ríkisbankaleiðin er ófær og það verður að bjóða erlendum kröfuhöfum bankanna að borðinu og gera þá hluta af lausninni í stað þess að reyna eingöngu að leysa vandamálin á þeirra kostnað.

Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins (SA) í fréttabréfi samtakanna í dag.

Þar segir Vilhjálmur að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja frá 2. desember síðastliðnum hafi verið að flestu leyti í takt við óskir Samtaka atvinnulífsins og á undanförum vikum og dögum hefur verið unnið að framgangi ýmissa þeirra mála sem þar er fjallað um.

Má þar t.d. nefna vinnubrögð bankanna vegna uppstokkunar fyrirtækja og heimildir til fyrirtækja til að færa ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum miðað við ársbyrjun 2008.

Vilhjálmur segir í pistli sínum að tvö stór mál í yfirlýsingunni þurfi sérstaka athygli ríkisstjórnarinnar, en það eru annars vegar uppgjör við kröfuhafa, eignarhald þeirra á bönkunum og þar með aðgangur atvinnulífsins að erlendu lánsfé og hins vegar aflétting gjaldeyrishaftanna sem illu heilli voru lögð á.

Sjá nánar á vef SA.