Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að efnahagsástandið hafi komið harkalega niður á mörgum fyrirtækjum í landinu og að staðan sé orðin mjög alvarleg.

Hann segir að stóra málið framundan sé að ná aftur aðgangi að erlendum fjármagnsmörkuðum.

Vilhjálmur ítrekar að eftir að lokaðist á erlenda fjármagnsmarkaði hafi vaxtastigið sem fyrirtækin búi við snarhækkað í einu vetfangi um mörg hundruð punkta. Nú sé svo komið að við sitjum uppi með mjög háa vexti, lægra gengi krónunnar en nokkru sinni fyrr og meiri verðbólgu en við höfum séð síðan 1990.

Hann segir að það hefði verið viturlegra fyrir Seðlabanka Íslands að fara hægar í sakirnar.

Gjaldeyrisvarasjóðurinn verði efldur

„Aðalatriðið er þó að horfa til framtíðar og reyna að komast út úr þessu með því að opna aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum. Þá lækkar fjármagnskostnaður fyrirtækjanna og vextir lækka. Þetta er það sem máli skiptir til að koma atvinnulífinu og þjóðarbúinu á réttan kjöl.“

Hann segir að ríkið hafi verið að reyna að ná þessu með skiptasamningunum við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Til viðbótar þurfi ríkið að byggja upp gjaldeyrisvarasjóðinn eins og áformað væri.