„Okkur finnst þessi lækkun afar rýr, það er ekki hægt að vinna eftir þessu,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) í samtali við Viðskiptablaðið og á þar við 100 punkta lækkun stýrivaxta í morgun.

Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun um lækkun stýrivaxta úr 18% í 17%.

Vilhjálmur telur að lækka þurfi stýrivexti snarlega niður í 10% og hefja lækkunarferli strax í kjölfarið. Hann segir enga ástæðu til að hafa stýrivexti svo háa, mun hærri en í nágrannalöndunum.

Þá segir Vilhjálmur að háir stýrivextir skapi mikil vandræði í atvinnulífinu sem sjáist best síauknu atvinnuleysi.

„Þetta kemur í veg fyrir sköpun nýrra starfa,“ segir Vilhjálmur.