Afstýra verður því að atvinnulífið og almenningur festist í fjötrum tveggja stafa verðbólgu og óstöðugleika.

Það má ekki gerast að núverandi erfiðleikar leiði til gamaldags víxlhækkana launa og verðlags sem á sínum tíma gengu nærri bæði starfsfólki og fyrirtækjum. Framfarir verða að byggja á stöðugleika, þannig eru mestar líkur á því að árangur náist.

Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) í leiðara fréttabréfs SA og segir að það verði eitt af helstu og mikilvægustu viðfangsefnum SA á næstu mánuðum að ræða við ASÍ, ríkisstjórnina og aðra aðila til að stuðla að stöðugleika á ný og tryggja hagvöxt í framtíðinni.

Í leiðara Vilhjálms kemur fram að SA hafa að undanförnu átt viðræður við Alþýðusambandið, landssambönd þess og stærstu félög vegna stöðu kjarasamninganna sem gerðir voru í febrúar á þessu ári.

Forsendur þeirra samninga voru m.a. að kaupmáttur lækkaði ekki og að verðbólga færi lækkandi.

„Nú er ljóst að forsendurnar kjarasamninga eru brostnar, verðbólga mælist í tveggja stafa tölu og kaupmáttur launa hefur lækkað,“ segir Vilhjálmur.

„Reyndar fer atvinnulífið ekki heldur varhluta af erfiðleikunum. Sem betur fer eru mörg öflug fyrirtæki í íslensku atvinnulífi líkleg til að komast í gegnum erfiða tíma án varanlegra áfalla en samkvæmt könnun SA frá því í sumar má reikna með því að 25% - 30% fyrirtækja verði í barningi sem verður sífellt þyngri eftir því sem hár fjármagnskostnaður og annað andstreymi varir lengur.“

Leiðari Vilhjálms er birtur á vef SA.