Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði á morgunfundi Viðskiptablaðsins í morgun að nauðsynlegt væri að Seðlabankinn breytti uppgjörsreglum sínum varðandi viðskiptajöfnuð við útlönd en tölur hingað til hefðu gefið ranga mynd af þróun mála.

„Rangar tölur valda skaða,“ sagði Vilhjálmur og sagði að viðskiptajöfnuður við útlönd hefði verið mun betri en tölur hefði sýnt hingað til.

„Þetta er eins og að reka fyrirtæki og þú veist aldrei hvort þú ert að græða eða tapa því tölurnar eru rangar,“ sagði Vilhjálmur. Hann sagði mjög óeðlilegt að þurfa ávallt að leiðrétta tölur aftur í tímann.

Í fyrirspurnartíma sagði Vilhjálmur að bæði Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið hefðu birt spár sínar um hagvöxt sem væru úr takt við raunveruleikann.