Hæstiréttur sneri í gær dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og hefur heimilað Vilhjálmi Bjarnasyni að taka skýrslur af vitnum vegna hugsanlegra málaferla á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni. Vildi Vilhjálmur fá að leiða Björgólf Thor og sextán aðra nafngreinda einstaklinga fyrir dóm og taka af þeim skýrslur, en Hæstiréttur veitti heimild til að taka skýrslur af öllum einstaklingunum nema Björgólfi Thor sjálfum þar sem hann yrði aðili að málinu ef af stefnu verður.

Vilhjálmur varð fyrir tjóni við fall Landsbankans og telur hann að tjónið megi a.m.k. að hluta rekja til ólögmætra og saknæmra athafna í starfsemi bankans sem Björgólfur Thor hafi stuðlað að eða átt þátt í.

Það sem Vilhjálmur vill upplýsa með skýrslutökunum eru í fyrsta lagi tengsl Samsonar eignarhaldsfélags ehf. við Landsbanka Íslands hf., í öðru lagi að raunverulegri eignarhlutdeild áðurnefnds eignarhaldsfélags í bankanum, í þriðja lagi að tengslum varnaraðila við bankann og heimilda til lánveitinga honum til handa í því ljósi, og í fjórða lagi að tengslum varnaraðila við ýmis félög sem nutu verulegrar fyrirgreiðslu í bankanum.