Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ekki megi lesa það úr grein hans sem birtist í Morgunblaðinu í dag að hann hyggist hætta á þingi eftir kjörtímabilið. Þvert á móti megi lesa úr henni að nauðsynlegt sé að hann bjóði sig aftur fram í komandi Alþingiskosningum.

Líkt og áður hefur verið greint frá í fjölmiðlum skaut Vilhjálmur föstum skotum að Framsóknarflokknum í aðsendri grein sinni í Morgunblaðinu í dag. Kallar hann Framsókn m.a. smáflokk með mikilmennskubrjálæði  og segir flokkinn hafa fengið þingsæti sín með lýðskrumi og ranglátri kjördæmaskipan.

Í samtali við Viðskiptablaðið segist Vilhjálmur hafa fengið mikil viðbrögð við greininni. „ Ég hef fengið skeyti og hringingar þar sem fólk lýsir yfir ánægju sinni með greinina. Það er partur af lýðræðinu að það sé sæmilegur jöfnuður á milli flokka. Þegar einn flokkur er farinn að hafa verulegan ávinning af kjördæmaskipaninni þá er lýðræðinu hætta búin.“

Vilhjálmur bendir á að hægt er að ná fram mun meira jafnvægi milli flokka með því að fjölga svokölluðum jöfnunarþingsætum. „Hitt er svo aftur vandamál Sjálfstæðisflokksins að hann skuli alltaf rata á þessa lausn.“

Aðspurður segist Vilhjálmur ekki hafa hugmynd um viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við greininni. „Nei ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef ekki fengið viðbrögð þaðan.“ Þá segir þingmaðurinn að það megi alls ekki lesa það úr greininni að hann hyggist hætta á þingi. „Það má auðvitað lesa útúr þessari grein að það er nauðsyn að ég bjóði mig fram aftur. Það er hinn augljósi lestur greinarinnar. Það má lesa það úr greininni að þessi maður hlýtur að ætla að bjóða sig fram aftur.“