Vilhjálmi Bjarnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins líst illa á hugmyndir Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, um að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka.

„Við höfum samfélagsbanka sem heitir Íbúðalánasjóður. Þarf ég að segja meira? Það er búið að moka í hann á annað hundrað milljörðum króna og sér ekki fyrir endann á,“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið.

Frosti kynnti hugmyndina á flokksþingi Framsóknarflokksins í Reykjavík síðustu helgi.

Vilhjálmur segir þessa hugmynd hafa ekki komið til umræðu og það sama gildi um tillögu Karls Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um að banna bankabónusa.

„Öll frásögn af þingi Framsóknar var heldur kómísk, án þess að nokkuð hafi verið gert til að færa það í kómískan búning. Framsóknarmenn sáu um það sjálfir,“ segir Vilhjálmur.