Vilhjálmur Ómar Sverrisson hefur verið ráðinn sölustjóri Icelandair á Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.

Vilhjálmur starfaði fyrir MasterCard/Kreditkort á árunum 1999 til 2007 við ýmis störf og síðustu 2 árin sem markaðsstjóri. Frá 2007 til 2009 vann hann í eignastýringu hjá SPRON Verðbréfum.

Vilhjálmur hefur verið við nám og störf í Frankfurt síðan byrjun árs 2009. Eftir nám í lok árs 2010 hóf hann störf hjá BNP Paribas í Frankfurt við Client Management. Hann hóf störf hjá Icelandair í Frankfurt árið 2013 þar sem hann sá um ýmis verkefni fyrir Icelandair í Mið-Evrópu og starfaði sem sölustjóri fyrir þýskumælandi markaði í 2 ár. Hann hefur unnið frá áramótum hjá Flugfélagi Íslands við greiningu á flugáætlun, leiðarkerfi og fleira að því sem kemur fram í tilkynningunni.

Vilhjálmur er með M.Sc. gráðu í fjármálum frá Frankfurt School of Finance & Management. Hann er einnig löggiltur verðbréfamiðlari og með B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann er kvæntur Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur og börn þeirra eru Grímur Steinn 12 ára og Ásta 5 ára.