Vilhjálmur Þorsteinsson hefur bæst í hóp lykilhluthafa Auðar Capital og eignast tæplega 10% hlut í félaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Auði Capital.

„Nálgun og hugmyndafræði Auðar höfðar til mín og hefur þegar sannað gildi sitt,“ segir Vilhjálmur í tilkynningunni.

„Í farvatninu er hugarfarsbreyting í viðskipta- og fjármálalífi, sem Auður er í takti við.  Félagið hefur skýr gildi og fyrirtækjamenningu sem ég trúi að skili árangri í breyttum heimi. Mikil tækifæri munu skapast fyrir fjármálafyrirtæki sem hefur traust og góða ímynd eins og Auður Capital.“

Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital segir að aðkoma Vilhjálms styrki Auði enn frekar. Reynsla hans muni nýtast vel í þeim verkefnum sem framundan séu, meðal annars í BJARKAR sjóðnum þar sem Vilhjálmur mun taka sæti í stjórn félagsins.

Vilhjálmur Þorsteinsson hefur starfað á sviði upplýsingatækni í aldarfjórðung og er í dag fjárfestir og stjórnarmaður í nokkrum fyrirtækjum, meðal annars CCP, Verne Holding, DataMarket, Gogogic og Gogoyoko.