,,Ég held að menn hafi gengið of langt í áhættusækni og hafi vantað jarðtengingu. Margir misstu sjónar á grunnþáttum rekstrar og fjármálastjórnar. Þessi jarðtenging er eitthvað sem menn eiga að geta sótt til stjórnarinnar."

Þetta kemur fram í viðtali sem Viðskiptablaðið átti við Vilhjlm Þorsteinsson fjárfesti í nýjasta tölublaði.

Vilhjálmur sagði að það væri eðlilegt að stjórnendur fyrirtækja séu drifnir áfram – þeir eru sóknarfólk og vilja að félagið vaxi og vilja ná meiri hagnaði. ,,Það er hlutarins eðli, en um leið á stjórnin að geta valið og hafnað, með langtímahagsmuni félagsins og hluthafa í huga, og vísað skynsamlegustu leiðina. Oft liggur kúnstin í því að kunna að segja nei.”

Að sögn Vilhjálms virðist sem svo að menn hafi misst sýn á samhengi hlutanna á Íslandi undanfarin ár. Þannig hafi áhættulausir vextir orðið mjög háir án þess að það hafi hægt á fjárfestingaákvörðunum, eins og eðlilegt hefði verið. Þá hafi menn freistast til að skuldsetja sig í erlendri mynt þó að tekjurnar hafi að mestu verið í krónum. Hluthafar hafi þannig oft setið uppi með aðra áhættu en til var stofnað í upphafi og þeir gátu búist við. “Það hefur grundvallaratriði hjá mér þar sem ég hef komið að félögum og orðið var við þessa freistni að fara í skuldsetningu í annarri mynt en tekjustreymið er, vegna vaxtamunar, að ég hef haft miklar efasemdir um það. Menn mega ekki gleyma því hverjar eru grunnstoðir rekstrarins. Og hluthafar geta sjálfir stundað spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði ef þeir kjósa svo, og þá með beinum hætti en ekki óbeinum eins og boðið hefur verið upp á í of mörgum íslenskum fyrirtækjum.”

Vilhjálmur Þorsteinsson var valinn stjórnarformaður ársins í vikunni. Markmið verðlaunanna er að veita stjórnarformönnum á Norðurlöndunum, sem náð hafa góðum árangri og stýrt starfi stjórnar af heilindum, með gott viðskiptasiðferði og samfélagsábyrgð að leiðarljósi, viðurkenningu fyrir störf sín. Vilhjálmur ræddi störf stjórnarformannsins í samtali við Viðskiptablaðið.