Hér á landi var farið rétt að málum, þ.e. bankarnir voru í raun látnir fara í þrot og kröfuhafar taka stærsta skellinn en í öðrum ríkjum hafa yfirvöld bjargað bönkunum með innspýtingu hlutafjár eða neyðarlánum en það mun leiða af sér frekari vandræði síðar meir.

Hins vegar er nauðsynlegt að klára skiptasamninga milli gömlu og nýju bankanna sem allra fyrst. Ef haldið er rétt á spilunum getur skuldastaða ríkisins orðið viðráðanleg og staðan hér á landi þarf því ekki að vera verri en í öðrum löndum.

Þetta sagði Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður CCP á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga nú í hádeginu en fundurinn var haldinn undir heitinu; Næstu skref: Hvað er framundan í íslensku efnahags- og atvinnulífi?

Vilhjálmur sagði að með því að klára skiptasamning milli gömlu og nýju bankann sem fyrst gætu nýir bankar hafið eðlilega starfssemi. Þannig færu hjól atvinnulífsins í gang á ný.

Vilhjálmur vék í erindi sínu að miklum fjárlagahalla ríkissjóðs og lagði til að samneyslan yrði færð aftur til ársins 2001, þ.e. að fjárlögin frá 2001 yrðu dregin upp að nýju. Þannig mætti fara betur yfir hvar aukning hafi orðið á fjárlögum síðustu ár og forgangsraða upp á nýtt. Vilhjálmur sagði vissulega væri málið ekki svona einfalt, en rétt væri að miða við útgjaldahlið ríkisins frá 2001 til að ná niður gífurlegum fjárlagahalla á þessu  ári og næstu árum.

Þá lagði Vilhjálmur til að stefnt yrði að upptöku evru, helst með inngöngu í ESB. Hann sagði að tilraunin til að halda úti sjálfstæðum fljótandi gjaldeyri hefði mistekist og Íslendingar þyrftu því að taka upp annan gjaldmiðil. Hann sagði að ef Íslendingar ætluðu að halda áfram að nota krónu þyrftum við áfram að búa við gjaldeyrishöft.

Að lokum sagði Vilhjálmur að lækka þyrfti stýrivexti sem fyrst þannig að það mikla fjármagn sem nú er á innlánsreikningum í bankakerfinu færi á hreyfingu og nýtt yrði til fjárfestingar í atvinnulífinu.